Jafntefli gegn Gróttu, pistill

Stelpurnar af Nesinu litu í heimsókn í gærkvöldi. Undirritaður átti von á einstefnu frá okkar hendi en annað átti eftir að koma á daginn. Sannast sagna hef ég ekki séð Grótturnar svo sprækar í áraraðir. Frammistaða þeirra gegn okkur varð til þess að ég skoðaði hvernig þeim hefur gengið það sem af er hausti. Í ljós kemur að þær hafa verið afar brokkgengar. Þær hafa lagt HK og KA/Þór en tapað fyrir Fylki. Miðað við úrslit annarra leikja virðast þær hafa hitt á sinn allra besta leik gegn okkur í gærkvöldi.

Við höfum svosem oft verið seinar í gang líkt og í gærkvöldi. Fyrstu skot okkar voru illa ígrunduð fljótfærnisskot og ætla mátti að stelpurnar væru mættar með sama hugarfari og ég þ.e. að leikurinn yrði auðunninn. Grótturnar áttu fyrsta korterið og höfðu tögl og hagldir á meðan við skutum markvörð þeirra í banastuð. Við náðum loks forystunni og höfðum marki betur í hálfleik, 12 - 11.

Í seinni hálfleik virtumst við lengi vel hafa leikinn í okkar höndum. Forystan aldrei nema eitt til þrjú mörk og Grótturnar alltaf inni í leiknum. Því miður náðum við aldrei að brjóta þær alveg í duftið, þær misstu aldrei trúna á hagstæðum úrslitum. En við virtumst með sigur í hendi þegar um 5 mínútur lifðu af leiknum og staðan 20 - 17. En þær skoruðu þrjú síðustu mörkin og niðurstaðan því jafntefli, 20 - 20.

En þó svo að Grótta hafi spilað sinn besta leik um langa hríð þá vorum við víðs fjarri eðlilegri frammistöðu. Við vorum ekkert að þvælast of mikið fyrir Gróttustelpunum í vörninni. Fyrstu sóknirnar okkar voru klárt djók og trillurnar þrjár fyrir utan hafa oft komið sér í betri færi áður en þær létu vaða á markið. Þá eru nokkur ár frá því að ég sá Jennýju verja jafn fá skot og í þessum leik.

En það var mjög ánægjulegt að sjá Önnu Úrsúlu aftur í liðinu. Þó svo að Anna eigi töluvert langt í að komast í gott form þá breytist ýmislegt með hennar innkomu. Anna stendur ekki kyrr þegar dauður bolti er í nágrenninu heldur stekkur til að koma lúkunum á boltann. Þá fer ekkert á milli mála þegar hún er á bekknum því hún lætur vel í sér heyra og hvetur stelpurnar áfram með ráðum og dáð. "Vel gert Bryndís - áfram stelpur - kemur Jenný". Henni er einfaldlega ekki sjálfrátt þar sem hún lifir sig svo vel inn í leikinn. Það er helst að Íris Ásta haldi sömu hvatningu á bekknum. En Íris er án nokkurs efa sá leikmaður sem hefur átt bestu byrjunina á tímabilinu hjá okkur. Það er líka gaman að fylgjast með hversu mikil stemmningsmanneskja Íris er. Það er unun að sjá hana bandvitlausa í hægri skyttunni þegar leikirnir eru við suðumark.

En við megum ekki kasta frá okkur stigum með jafn klaufalegum hætti og við gerðum gegn Gróttu. Það getur gert okkur erfitt fyrir síðar.

Helstu tölur: Jenný varði 13 skot. Mörk Vals: Íris Ásta 4, Hrafnhildur 4, Ragnhildur Rósa 4, Kristín 3, Rebekka 1, Mary 1, Heiða 1, Karólína 1 og Morgan 1.

Næsti leikur stelpnanna er laugardaginn 12. október 2013 gegn Haukum suður undir kerskálum. En áður en til þess kemur fjölmennum við í Austurbergið á morgun, fimmtudaginn 10. október og tuskumst á við Breiðhyltingana.

Áfram Valur!

9. október 2013
Sigurður Ásbjörnsson