Afleitur endir, pistill

Þegar Óli gerði grein fyrir því snemma í haust hvernig hann hygðist byggja Valsliðið upp þá bað hann stuðningsmenn um að vera þolinmóða. Við ættum eftir að tapa mörgum leikjum til að byrja með en þegar liði á tímabilið þá færum við að safna stigum og í framhaldinu kæmu titlar í hús. Sennilega voru margir búnir að gleyma þessu þegar við glutruðum niður leiknum gegn Fram á fimmtudagskvöldið. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt. Valsliðið hafði skapað væntingar með góðri frammistöðu í þremur haustmótum sem það tók þátt í. Óli hafði að eigin sögn sett Val í efsta sæti í haustspá forráðamanna og fyrirliða. Þá hafði liðið átt ágæta leiki gegn Hafnarfjarðarliðunum í fyrstu leikjum Olísdeildarinnar. Bjartsýni var því ekkert bannorð í okkar röðum.

Og þegar upp er staðið þá vil ég hrósa nokkrum leikmönnum fyrir sitt framlag:

  • Fyrirliðinn Þorgrímur Smári var t.a.m. að spila sinn besta sóknarleik það sem af er deild.
  • Geir hefur ekki verið með svona góða nýtingu í vetur og var miklu yfirvegaðari í sóknarleik sínum heldur en hann hefur verið í haust.
  • Geir komst a.m.k. tvisvar inn í langar sendingar Framara og náði að snúa vörn í sókn.
  • Alexander Örn var mun yfirvegaðari í varnarleiknum heldur en við höfum séð hann í fyrri leikjum.
  • Ægir, Elvar og Guðmundur Hólmar vörðu samanlagt átta eða níu skot í hávörn.
  • Lárus sá einn um markvörsluna og varði 14 skot sem er ekkert til að kvarta yfir. Vissulega engin snilld en mun betri markvarsla en sá danski sýndi í rammanum hjá Frömurum.

En þrátt fyrir þessa jákvæðu punkta þá töpuðum við fyrir Frömurum. Mér fannst þrátt fyrir hávörnina og markvörsluna hjá okkur að varnarleikurinn væri meingallaður. Leið Framara í gegnum vörn okkar var alltof greið og línuspil þeirra gekk mun betur heldur en hjá okkur. Þá vorum við ótrúlega lélegir að klára ekki leik þegar við höfðum fimm marka forskot 24 - 19 og rúmar 16 mínútur til leiksloka!! Hvernig má það vera? Almennt læt ég mig litlu skipta hvernig andstæðingarnir spila en það er ekki hægt annað en hrósa markverði Framara sem hljóp í skarðið fyrir Danann sem hafði varið "skid og ingenting" fyrstu 45 mínútur leiksins. Sókn eftir sókn virtumst við vera að klára leikinn, komnir í gegn en þá drap markvörður þeirra boltann undir sér. Svo verður að segjast eins og er að þegar Framararnir spiluðu mjög framarlega gegn skyttunum okkar í lokin þá var sóknarleikur okkar mjög ráðleysislegur.

En það hvarflar ekki að mér að dæma stöðu Valsliðsins út frá úrslitum þessa leiks. Ég vil dæma leikmennina út frá því sem ég hef séð þá gera best og ég veit að flestir eiga þeir töluvert inni. Ég er mjög hrifinn af þessu skiptikerfi þar sem nánast allt liðið er endurnýjað á kortersfresti en ég vona að lykilmenn átti sig á því að þeir eru eftir sem áður menn með stórt hlutverk. Það er hins vegar auðséð að ungu leikmennirnir eru að vaxa í þessu kerfi. Um leið og þeir ungu eru að taka stökk fram á við þá mega reynsluboltarnir ekki slaka á. Þeir verða að gera sitt besta en mega alls ekki hverfa í einhverja ládeyðu.

Næsti leikur er gegn ÍR sem er að mínu mati mun betra lið heldur en Fram. Á síðu okkar frábæru Mulingsvélar sem eru okkar öflugustu stuðningsmenn er að finna eftirfarandi orð eftir leikinn:

Leikurinn fór eins og hann fór. Svekkjandi, en það mun taka tíma fyrir nýja þjálfara að stilla saman strengi og við munum styðja við bakið á þeim alla leið. Tíu Valsmenn sungu og skemmtu sér með Mulningsvélinni á meðan leiknum stóð. Tíu. Eruði að segja mér að við getum ekki gert betur en þetta?

Ég legg til að við leggjumst á árar með Mulningsvélinni í komandi leikjum. Þið finnið mig í þeirra hópi í Austurbergi.

Fáeinar tölur: Staða í hálfleik 14 - 13 fyrir Val, úrslit 25 - 26 fyrir Fram. Lárus varði 14 skot. Markaskorarar Vals: Geir 9, Elvar 5, Þorgrímur 4, Guðmundur Hólmar 3, Bjartur 2, Finnur Ingi 1 og Atli Már 1.

Næsti leikur strákanna er gegn ÍR í Austurbergi á fimmtudaginn 10. október kl. 20:00 en fyrst spila stelpurnar gegn Aftureldingu á morgun laugardaginn 5. október og gegn Gróttu kl. 19:30 þriðjudaginn 8. október nk.

4. október 2013
Sigurður Ásbjörnsson