Valsstelpur í U19 í Búlgaríu

Dagana 19.-27. september tók U19 ára landslið kvenna í knattspyrnu þátt í undankeppni EM og fór riðillinn fram í Búlgaríu. Í liðinu voru fjórir leikmenn Vals þær ElÍn Metta Jensen, Hildur Antonsdóttir, Ingunn Haraldsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir. Leikið var við landslið Búlgaríu og vannst sá leikur 5-0, þá við landslið Slóvakíu sem einnig vannst 5-0 og þar skoruðu Elín Metta, Hildur og Svava Rós sitt markið hver. Lokaleikurinn var gegn nýkrýndum Evrópumeisturum Frakka og tapaðist hann 0-3. Með árangri sínum tryggðu stelpurnar sér sæti í milliriðli. Þess má einnig geta að þær Hildur og Elín Metta skiptu með sér hlutverki fyrirliða í mótinu.