Pistill um sigurinn gegn Akureyri í Olísdeild karla

Mál til komið - pistill

Funduð þið muninn strákar?  Loksins, loksins, langþráður sigur.  Þetta jafnast á við góða sturtu og hrein nærföt eftir að hafa svamlað í forinni í mánuð.  Þið hljótið að finna það allir sem einn hvort sem þið eruð á línunni Man Basic, Joe Boxer, Under Armour eða jafnvel Kelvin Klein pjattrófur.  Þetta leggst öllu betur í mannskapinn.

Ég var nú samt dálítið uggandi fyrirfram þar sem ég hafði ekki séð til Akureyringanna.  En samkvæmt fréttum voru þeir búnir að leggja þau lið sem reiknað var með að yrðu í botnbaráttu og hugðu sér vafalítið gott til glóðarinnar að mæta okkur í sárum.  Staða okkar er slík að andstæðingarnir mæta með sverð á lofti sannfærðir um að þeim muni takast að ganga á milli bols og höfuðs á okkur.

Undirritaður var í anddyrinu þegar Norðanmenn komu í Vodafonehöllina.  Þeir voru svo glaðlegir að mér varð samstundis ljóst að þeir höfðu hvorki þurft að takast á við punkterað dekk né draga fram spaða til að grafa sig í gegnum ísbrynjaðar heiðar á leiðinni suður.

Það var ekki til að draga úr baráttuvilja þeirra þegar vallarþulur okkar kynnti til leiks Valsmanninn í þeirra röðum.  Þeim góða dreng Gunnari Malmquist var ekkert um þetta gefið.  Hristi hann hausinn þar sem hann stóð ásamt félögum sínum úti á miðju gólfi og sór þess eið á staðnum að hann væri gegnheill félagi sameinaðrar Akureyrar.  Og til að enginn þyrfti nú að efast um trúmennsku Gunnars þá tók hann sig til og skoraði fyrsta markið á fyrstu mínútu leiksins.

Akureyringarnir komu mjög grimmir til leiks.  Gunni Mall var ekki einn um að ætla sér sigur.  Það var augljóslega búið að spenna stemmninguna í liðinu inn á sigur og ekkert annað.  Enda þurftu þeir eingöngu tvær mínútur til að fá fyrstu tvö spjöldin og þegar flautað var til hálfleiks höfðu þeir náð sér í þrjú spjöld og fjórar brottvísanir.  En þeir gátu leyft sér að vera bjartsýnir í hálfleik.  Þar sem þeir leiddu með tveimur mörkum, 11 - 13.

Fram undir miðjan seinni hálfleik virtust Akureyringarnir vera búnir að ná tökum á leiknum.  Við vorum í sífelldum eltingaleik og þegar við virtumst með nokkru ströggli vera að minnka muninn í eitt mark þá svöruðu þeir strax með fremur ódýru marki á móti.  En við buguðumst blessunarlega aldrei og síðasta korter leiksins skoruðum við níu mörk gegn einu norðlensku.  En á þessum sama tíma náðu Akureyringarnir sér í þrjár brottvísanir, þar af beint rautt á lokamínútunni.  Sigurinn lenti því okkar megin eftir 45 mínútur af eltingarleik.  Leiknum lauk 26 - 21.

Eftir leik hef ég hlustað á margvíslegar umræður um heppni, óheppni, dómgæslu auk margvíslegra pælinga í þá veru að við höfum ekki átt sigurinn skilið.  Ég er aldeilis ósammála þessum bollaleggingum og fullyrði að við höfum unnið fyrir þessum stigum með eðlilegum hætti.  Það var einfaldlega fáránlega djarft teflt hjá Akureyringum að spila svo grimma vörn eins og þeir gerðu.  Ég hef aldrei séð aðra eins afbrotatölfræði og í þessum leik.  Það voru dæmd 19 víti.  Tíu vegna brota Akureyringa og níu vegna okkar brota.  Þá voru tólf brottvísanir og eitt beint rautt í leiknum.  Við vorum sendir fjórum sinnum út af en þeir átta sinnum auk þess sem einn akureyrskur leikmaður fékk beint rautt þegar skammt var til leiksloka.  Veslings kiðlingarnir okkar sem halda um moppurnar voru alltaf úti á gólfinu þar sem það þurfti ítrekað að stoppa leikinn til að þurrka upp svita eftir lárétta lendingu.

Niðurstaða mín er því sú að við unnum Akureyringana verðskuldað.  Grimmdin var þeim einfaldlega of dýr þegar leið á leikinn.  Hins vegar er ekki hægt annað en hrósa þeim fyrir baráttuviljan og það er auðséð að þeir eru með frábæran efnivið þar sem kjarni liðsins er mjög ungur.

Ég hef meiri áhuga á okkar mannskap.  Ég þykist allvel að mér um getu okkar stráka og er á því að þorri þeirra virkar á mig eins og þeir séu að halda aftur af sér.  Það er ástæðulaust.  Sýnið meiri ákefð í leiknum og látið engan efast um hverju þið eruð að reyna að áorka.

Fáeinar tölur:  Hlynur varði 13 skot og Lárus varði 8 skot.  Markaskorarar Vals: Finnur Ingi 8, Guðmundur Hólmar 7, Atli Már 3, Orri Freyr 2, Vignir 2, Bjartur 2, Sveinn Aron 1 og Ægir Hrafn 1.

Næsti leikur strákanna er gegn HK í Digranesi á fimmtudaginn 24. október kl. 19:30 en það er hlé hjá meistaraflokki kvenna fram undir mánaðamót vegna landsleikja.

19. október 2013

Sigurður Ásbjörnsson