Pistill um sigurinn gegn FH í Olísdeild kvenna

Afmælisgjöf til þjálfarans - pistill

 

Sjónvarpsstjórinn okkar síkáti, Ragnar Vignir, kallaði föstudagsverkefnin okkar tvíhöfða.  Tveir handboltaleikir voru á dagskrá í röð og því útlit fyrir töluverðan gestagang í Vodafonehöllinni.  Tvíhöfðaheitið hjá sjónvarpsstjóranum er á sér vafalítið skýringar í því að maðurinn er skólaður í íþróttafræðum og þá verður heiti upphandleggsvöðvanna fast í minni.  Ef Raggi hefði lagt fyrir sig dansmennt þá get ég mér þess til að dagskráin hefði kallast "paso doble" en kannski "Stríð og friður" eða "Snúður og Snælda" ef hann hefði ánetjast bókmenntunum.

Verkefni stelpnanna var að takast á við "litlu systur" og stöllur hennar úr Hafnarfirði.  Eins og flestum ætti að vera kunnugt þá er "litla systir" engin önnur en Heiðdís Rún Guðmundsdóttir sem því miður var óheppnasti leikmaður Vals á síðustu árum en hún varð fyrir því að slíta bæði krossbönd og hásin hvort á eftir öðru og náði sér því aldrei á strik í okkar röðum.  En það breytir ekki því að undirritaður sér eftir henni þar sem hún hefur ýmislegt til að bera til að verða frábær leikmaður.  Þó svo að FH stelpur hafi ekki safnað mörgum stigum það sem af er Olísdeildinni þá stóðu þær uppi í hárinu á Framstelpum og eru því sýnd veiði en ekki gefin.

Sumar stelpurnar úr meistaraflokki hafa verið fremur vonsviknar vegna þess að þær hafa ekki notið hvatningar frá Mulningsvélinni, sem hefur vakið eftirtekt fyrir vasklega framgöngu í stúkunni.  Mátti á sumum stelpunum skilja að þeim þætti skorta nokkuð á kvensemi þeirra pilta.  Vekur þetta nokkra furðu þar sem þorri hópsins er á þeim aldri þar sem kvensemin nær sem hæstum hæðum.  En stöldrum aðeins við.  Fréttaritarinn biður lesendur um að hefja hug sinn upp fyrir buxnastreng, já og enn hærra því ekki vill hann vita af ykkur með glyrnurnar á barmi stelpnanna.  Með fjálglegum skrifum um skort á kvensemi er ekki verið að hvetja nokkurs annars en þess að strákarnir í Mulningsvélinni hvetji Valsstelpurnar áfram til sigurs.  Hugsum nú hátt.  Hvaða Valslið hefur skilað flestum titlum í hús á síðustu árum?  Já, mikið rétt, það er meistaraflokkur kvenna í handbolta.  Og þó ekki væri nema fyrir það eitt þá verðskulda þær dyggan stuðning Valsara.  Gildir þá einu hvort þeir teljist til mulningsvélar eða óbreyttra.  Og það var einmitt það sem gerðist í seinni hálfleik þegar hópur úr Mulningsvélinni þrammaði í salinn og lét duglega í sér heyra þar til yfir lauk.

FH stelpurnar voru með bölvaðan derring í byrjun og var staðan 1 - 5 þeim í vil eftir fáeinar mínútur.  En það tók okkur fáeinar mínútur að jafna og hirða frumkvæðið sem við héldum fram í hálfleik.  Staðan 15 - 10 fyrir okkur í hálfleik.

Seinni hálfleikur var sannast sagna ótrúlegur.  En til að gera langa sögu stutta þá höfðum við mun betur á þeim kafla og skoruðum 18 mörk gegn 5.  Leiknum lauk því, 33 - 15.  En hvernig gerðist þetta?  Stelpurnar eru einfaldlega að komast í miklu betra leikform en við höfum séð til þessa.  Sóknarleikurinn er ekki bara drifinn áfram af þremur skyttum, heldur eru hornamennirnir okkar á mikilli siglingu.  Auk þess sem hraðaupphlaupin hafa dúkkað upp að nýju eftir nokkra fjarveru.  Innleysingar úr hornum á réttu augnabliki sjást enn og aftur.  Auk þess sem vörnin er að batna til muna.  Anna Úrsúla er að komast í form.  En hún er ekki einasta frábær varnarmaður heldur einnig mjög ratvís við að koma boltanum hratt og örugglega á sprettfiskana í hraðaupphlaupum.  Jafnframt gerist það um leið og vörnin batnar, þá batnar markvarslan og þær stöllur Jenný og Sigríður sýndu sínar bestu hliðar gegn FH.  En samtímis því að reynsluboltarnir eru að komast í betra form þá er jafnframt að aukast traust og spilatími ungu leikmannanna okkar.  Það er frábært að sjá kjúklingana vaxa með viðfangsefnum sínum.  Þannig á það að vera.

Broskall leiksins var í boði Kristínar Guðmundsdóttur en hún lék á okkur öll þar sem hún stökk upp fyrir utan teig FH-inga og leit í kringum sig.  Í stúkunni sá hún fyrir bónda sinn fylgjast með leiknum í hinum mestu makindum.  Þá fannst kellu það afbragðs hugmynd að gefa á karlinn í miðjum leik.  Íris Ásta misskildi Kristínu og stóð í þeirri meiningu að boltinn væri ætlaður sér.  Hún stökk því hæð sína í fullum herklæðum en dugði hvergi til að koma svo mikið sem löngutöng á boltann.  Ekki hef ég neitt á móti því að þau hjónakornin skelli sér í einhvers konar boltaleik saman en ég legg til að þau finni hentugri tíma en miðjan kappleik á Íslandsmótinu.  Enda kom bóndinn algjörlega af fjöllum. 

Hrós og hamingjuóskir fær vitaskuld þjálfari stelpnanna, Stefán Arnarson, sem fagnar fimmtugsafmæli sínu um þessar mundir.

Helstu tölur:  Jenný varði 16 skot (þar af 2 víti), Sigríður varði 4 skot (þar af 1 víti).  Mörk Vals: Karólína 8, Íris Ásta 6, Kristín 6, Aðalheiður 3, Mary 3, Morgan 2, Ragnhildur Rósa 2, Hrafnhildur 1, Anna Úrsúla 1 og Vigdís Birna 1.

Framundan er landsleikjahlé í Olísdeild kvenna.  Næsti leikur stelpnanna er því fimmtudaginn 31. október 2013 gegn Fram í Safamýrinni.  En áður en til þess kemur fjölmennum við í Digranesið á fimmtudaginn, 24. október og styðjum strákana gegn HK.

Áfram Valur!

20. október 2013

 

Sigurður Ásbjörnsson