Mikil framför, pistill

Öðru sinni á þessu hausti fengum við heimaleiki beggja handboltaliða Vals á sama degi. Að þessu sinni fylltist húsið af utanbæjarfólki. Fyrst voru það peyjarnir úr Eyjum sem renndu glaðbeittir í hlað og komu skelliblaðrandi inn í Vodafonehöllina, augljóslega nokkuð sigurvissir eftir mikla sigurför í útileikjum sínum. Um Eyjaliðið var ég fremur fáfróður þar sem ég hef ekki séð til þeirra um langa hríð. En þjálfari þeirra, Gunnar Magnússon, er kunnur af góðu einu. Þess utan vitum við um unga menn af höfuðborgarsvæðinu sem eru komnir í þeirra hóp. Má þar nefna Róbert nokkurn sem iðulega hefur verið lofaður í hástert og okkar ástkæra og örvhenta Agnar Smára sem var lokkaður á ástarfund eftir 15 mínútna ferð með Herjólfi.

Það var svo sem engin sérstök ástæða til bjartsýni í byrjun leiksins. Eyjastrákar skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum leiksins og engin afrek í augsýn okkar megin. En það var samt einhver vinnusemi í varnarleik Valsliðsins sem var afdráttarlaus vísbending um að maður mátti láta eftir sér von. En vinnusemin fólst fyrst og fremst í dugmiklum indjána þar sem Vignir átti mjög flottan leik sem fremsti varnarmaður. Vignir stoppaði sendingar Eyjamanna þrisvar í fyrrihálfleik og smitaði Guðmund Hólmar sem átti líka sín tilþrif í vörninni í fyrri hálfleik. En fyrri hálfleikurinn einkenndist af miklu ströggli þar sem allt var í járnum þar til skammt var til hálfleiks. Staðan var 13 - 13 þegar Finnur Ingi kom okkur marki yfir, en þá hrundu himnarnir. Toggi fékk beint rautt sem var sárgrætilegt þar sem hann var á þessum tíma mjög vaxandi í leiknum en mínútu síðar var Orri sendur á bekkinn og við því tveimur færri þegar um tvær og hálf mínúta lifði af hálfleiknum. En þá var það Sveinn Aron sem sótti fast á vörn ÍBV. Svenni sá glufu og reyndi að smeygja sér og það þurfti ekki meira en hausinn og aðra höndina og bang! Valur kominn með tveggja marka forystu þrátt fyrir að vera tveimur mönnum færri. Vel gert Svenni! Guðmundur Hólmar sá síðan um að auka muninn í þrjú mörk fyrir hlé. Staðan var því 16 - 13 fyrir Val í hálfleik.

Í seinni hálfleik herti Valsliðið tökin á leiknum og um tíma var hverju marki ÍBV svarað með tveimur Valsmörkum. Munaði þar mest um atgang Guðmundar Hólmars sem lét það ekki setja sig út af laginu þó svo að Eyjamenn hafi reynt að hafa úr honum framtönn í fyrri hálfleik. Leiknum lauk með verðskulduðum sigri Vals 32 - 26. Eini alvöru ógnvaldur Eyjamanna í seinni hálfleik var vinur vor Agnar Smári.

Ég er þess fullviss að hver einasti leikmaður Valsliðsins hefur átt betri leik heldur en þennan gegn Eyjamönnum. En ég er þess jafnframt viss að þetta var besti leikur Valsliðsins það sem af er tímabilinu. Ég hef í allt haust verið að bíða eftir framförum. Nú sá ég framfaraskrefin, bæði í vörn og sókn. En ég sá líka jákvætt viðhorf í framgöngu allra leikmanna. Menn voru að leggja sig fram og hjálpast að í vörninni. Menn á borð við Geir sem hefur til þessa ekki öðlast mikla frægð fyrir varnarleik. Honum gekk brösuglega í sókninni í byrjun en efldist í vörninni þegar hann kom aftur við sögu í seinni hálfleik. En þá átti hann líka flottar klínur þegar hann stalst fram yfir miðju. Í þessum leik sáum við að boðið var upp á nýjungar þegar sóknarleikur liðsins dreifðist yfir á vængina. En það hafa verið allnokkrir leikir þar sem öll ógnun hefur komið frá skyttunum og miðjunni. En núna er dreifingin að aukast. Ágætt dæmi um það sáum við í fyrri hálfleik þegar hægri skyttan sótti að vörn Eyjamanna og senti síðan

langa sendingu í vinstra hornið og síðan öfugt skömmu síðar, þ.e. vinstri skyttan sótti að og gaf síðan langa sendingu í hægra hornið. Þó svo að hornamennirnir hafi ekki náð skoti þá var augljóst að slíkar krúsídúllur í sóknarleiknum setja andstæðingana úr jafnvægi og bindur vörn þeirra lengra niður í hornin sem skapar síðan meira rými fyrir okkar stráka til að komast í gegnum vörn andstæðinganna. Svo er einfaldlega hrein unun fyrir okkur áhorfendur að sjá liðið bjóða upp á nýjungar í þessari skemmtilegu íþrótt.

En þó svo að leikurinn hafi verið sá besti í haust þá er margt sem þarf að laga og starfið heldur áfram. En batamerkin blasa við. Takk fyrir það þjálfarar og leikmenn.

Fáeinar tölur: Hlynur varði 11 skot (þar af 1 víti) og Lárus varði 6 skot. Markaskorarar Vals: Guðmundur Hólmar 13, Sveinn Aron 6, Finnur Ingi 4, Vignir 3, Ægir 2, Geir 2, Alexander 1 og Þorgrímur 1.

Næsti leikur strákanna er gegn Haukum á Ásvöllum innan um mengaða mosann í Hafnarfirði fimmtudaginn 14. nóvember kl. 20:00. Þangað skulum við fjölmenna.

10. nóvember 2013
Sigurður Ásbjörnsson