Jafntefli í toppslag – pistill

Seinni leikur laugardagsins var toppslagur í Olísdeild kvenna þegar Ungmennafélagið Stjarnan úr Garðabæ stormaði í hús ásamt nokkrum tugum stuðningsmanna.  Garðbæingar hafa verið í efsta sæti deildarinnar frá því að við misstigum okkur gegn Gróttu.  Þær slógu okkur út úr úrslitakeppninni í vor og það var því upp á þeim typpið (stelpur eiga þetta til líka) þegar þær mættu í Vodafonehöllina í gær.

Það voru nýju mömmurnar okkar þær Rebekka og Anna Úrsúla sem áttu sitt markið hvor áður en Stjörnustelpur komust á blað.  Okkar stelpur voru greinilega með hausinn í lagi frá byrjun og við áttum allt frumkvæði í leiknum fram í miðjan hálfleik.  En þá snerist taflið við.  Stjarnan tók frumkvæðið og við eltum.  En til hálfleiks var munurinn eitt til tvö mörk.  Í hálfleik stóð 12 - 13 fyrir Stjörnuna.

Í seinni hálfleik spiluðust fyrstu 20 mínúturnar svipað og seinni hluti fyrri hálfleiks.  Stjarnan leiddi  og við eltum.  En þegar tæpar tíu mínútur voru til hálfleiks var staðan 21 - 22 fyrir Stjörnuna, þá skoruðu Valsstelpur þrjú mörk í röð.  Við vorum því komnar í bílstjórasætið með tveggja marka forystu og rúmar þrjár mínútur til leiksloka.  En því miður þá skoruðu gestirnir tvö síðustu mörkin og niðurstaðan því jafntefli 24 - 24.  Líklega teljast það sanngjörn úrslit.  Það er ekki mikill munur á liðunum nú um stundir.  En það var augljóst að Valsþjálfararnir höfðu lagt upp úr því við Valsstelpurnar að þær yrðu að vera fljótar til baka.  Og stelpurnar stóðu við það og fengu því ekki mörg hraðaupphlaup á sig.  En okkar stelpur voru þess í stað með nokkra flotta spretti.

Ég er á því að þær Rebekka Rut, Aðalheiður, Anna Úrsúla og Jenný hafi verið að spila sinn besta leik það sem af er tímabilinu.  En jafnframt veit ég að þær Anna og Rebekka eiga helling inni m.v. fyrra form.  Það mun án nokkurs efa skila sér eftir því sem líður á tímabilið.  Það er alltaf markvarðaslagur þegar þessi lið mætast.  Landsliðsmarkmennirnir í sínum rammanum hvor og eins gott að vanda skot sín ef menn ætla að skora.  Að þessu sinni var augljóst hvor hafði betur.  Okkar ástsæla Jenný spilaði frábærlega og þó svo að undirritaður sé vafalaust hlutdrægur í umfjöllun sinni þá held ég að hver einasti Garðbæingur játi sína Flóru í flórnum hvað þetta snertir.

En hvað er framundan.  Það er flestum ljóst að það eru þessi lið, Valur og Stjarnan, sem eru líklegust til að berjast um titilinn í vor.  En við megum ekki slaka á ef við ætlum að taka titla.  Við vanmátum að mínu mati Gróttu en Fram og ÍBV geta verið mjög öflug og eru sýnd veiði en ekki gefin.  Við verðum því að bæta okkur ef við ætlum okkur stóran titil í vor.  En að því er augljóslega unnið og spil liðsins hefur tekið miklum framförum í undanförnum leikjum.  En til að koma leikmönnum eins og Önnu Úrsúlu og Rebekku í leikform þá hafa þær fengið mikinn spilatíma sem hefur vissulega bitnað á leiktíma annarra sem spila sömu stöður.  En þær Bryndís, Heiða og Guðrún Lilja hafa því þurft að sitja meira á bekknum þrátt fyrir að verðskulda lengri leiktíma í ljósi frammistöðu sinnar.  En í þessu efni skil ég þjálfarana vel, því að það er brýnt fyrir gæði liðsins að fá nýju mömmurnar í sem allra best form.  En þegar þær eru orðnar sjálfum sér líkar þá vænti ég þess að spilatíminn dreifist meira.

Helstu tölur:  Jenný varði 19 skot, Sigríður varði 1 víti.  Mörk Vals: Ragnhildur Rósa 6, Aðalheiður 5, Kristín 4, Rebekka 3, Hrafnhildur 2, Anna Úrsúla 2, Mary 1 og Karólína 1. 

Næsti leikur stelpnanna er laugardaginn 16. nóvember 2013 gegn HK í Digranesi.  Ykkur er alveg óhætt að fjölmenna þangað.  Það er búið að fækka hraðahindrunum á Digranesvegi!  En áður en til þess kemur fjölmennum við á Ásvelli og styðjum strákana gegn Haukum fimmtudaginn 14. nóvember.

Áfram Valur!

10. nóvember 2013

 

Sigurður Ásbjörnsson