Aldrei Spurning - pistill

Það eru liðnir rúmir tveir mánuðir frá síðasta heimaleik Valsstelpna, að vísu eru þær búnar að spila tvo útileiki í byrjun árs en undirritaður sá hvorugan þeirra.  Það hefur gengið á ýmsu með heilsufar leikmanna og í leik dagsins jókst heldur á vandræðin.  Þær Jenný, Íris Ásta og Rebekka glímdu allar við tognun í lærvöðva en hlutskipti þeirra hefur orðið afar ólíkt.  Rebekka er alveg búin að ná sér, Íris virtist búin að ná sér þegar hún sleit krossband og Jenný varð fyrir því að bilið á milli stóru tánna á henni náði hámarki á landsliðsæfingu.  Það kostaði sársaukafulla tognun á læri og er Jenný ekki væntanleg í boltaleik fyrr en í næsta mánuði.  En fyrir vikið hafa aðrir leikmenn orðið að axla meiri ábyrgð auk þess sem ungar og efnilegar stelpur úr þriðja flokki hafa skrifað undir samninga að undanförnu og fengu sumar að þreyta frumraun sína með meistaraflokki í leik dagsins.

Það er mjög gleðilegt að fylgjast með ungum og efnilegum leikmönnum stíga sín fyrstu spor en það er líka ánægjuefni að sjá síunga og góða leikmenn sýna sig á nýjan leik.  Það höfum við fengið að undanförnu því Berglind Íris Hansdóttir er komin í hópinn að nýju eftir nokkra ára fjarveru með Noregsvist og barneign á ferilskránni til viðbótar við fyrri afrek.  Begga hefur verið að spila með Valsstelpunum í utandeildarkeppninni en féllst á að hlaupa í skarðið fyrir Jennýju.

Gestir dagsins voru Mosfellingarnir úr Aftureldingu sem verma botnsæti deildarinnar.  Það átti sjálfsagt enginn von á spennandi leik enda sýndi gæðamunurinn á liðunum sig strax í upphafi.  Af fyrstu sjö mörkunum skoruðu Valsstelpur sex og sá munur var síðan tvöfaldaður fyrir leikhlé, 20 - 10.  Sömu yfirburðir Valsliðsins héldu áfram til leiksloka.  Valsliðið tók rokur þar sem það skoraði allt upp í fimm mörk í röð án þess að fá nokkuð á sig.  Vesalings Mosfellingarnir áttu aldrei möguleika og leiknum lauk 39 - 18.

Það var í sjálfu sér fátt merkilegt við leikinn en ótíðindin eru þau að þær Anna Úrsúla og Ragnhildur voru báðar komnar með íspoka á ökkla um miðjan leik.  Ég held og vona að þær séu ekki illa meiddar, a.m.k. sýndist mér að Anna hefði misstigið sig og ef það er rétt þá vænti ég þess að hún verði tiltölulega fljótt klár í slaginn.

Markverðirnir skiptu leiknum bróðurlega (já þetta geta stelpur líka) á milli sín.  Sigríður stóð vaktina í fyrri hálfleik og varði 6 skot.  Auk þess sem hún kom tvisvar í veg fyrir að Afturelding fengi horn eftir að vörnin hafði varið skot og boltinn á leið aftur fyrir endalínu.  Þá átti Sigríður sendingu beint í fangið á Rebekku í hraðaupphlaupi sem lauk með marki.  Eða í stuttu máli, hún stóð sig óaðfinnanlega.  Mér fannst því engin sérstök ástæða til að setja Beggu í markið í hálfleik.  En sú byrjaði með látum því hún varði þrjú skot Mosfellinga í fyrstu sókn þeirra og þar með var hún komin í gang.  Það var frábært að fylgjast með henni.  Viðbragðshraðinn ótrúlegur og hún varði um 70 % skotanna sem komu á markið, þar af 1 víti.  En helmingur markanna sem Begga fékk á sig voru einmitt úr vítum.  Ótrúleg frammistaða 18 skot varin í einum hálfleik.  Toppið þið það Landin og Omeyer!

Þær systur Rebekka og Hrafnhildur áttu frábæran leik.  Rebekka var markahæst og er að komast í landsliðsform.  Hún skoraði nokkur mörk úr hraðaupphlaupum, horninu, af línu og sýndi jafnframt á sér nýja hlið þar sem hún skoraði tvö síðustu mörkin með uppstökki fyrir utan vörn.  Frábær leikur af hennar hálfu.  Hrafnhildur átti mjög góðan leik þó svo að hún hafi ekki verið í hópi markahæstu manna.  Hún var frábær að spila uppi stöllur sínar í öllum stöðum.  Spilamennska hennar í þessum leik minnti mig á það hvernig Óli Stef spilaði síðasta landsleikinn sinn.  Allt á fullum krafti en sami hluturinn aldrei endurtekinn, heldur alltaf valin ný og ný leið til að klára verkefnið.  Svona geta þroskaðir leikmenn með frábæran leikskilning leyft sér að gera.

Karólína var rétt eins og Rebekka í góðum gír í hægra horninu og skoraði þess utan nokkur mörk úr hraðaupphlaupum.  Skemmtilegustu hraðaupphlaupin eru þegar þær stöllur taka báðar á rás og boltinn gengur á milli þeirra í fáum sendingum og sú klárar sem kemur sér í betra færi.  Þar er engin eigingirni á ferðinni heldur fagmenn sem skilja hlutverk sitt til fullnustu.

Kristín skoraði mest af þremenningunum fyrir utan.  Krístin er búin að vera mjög öflug í sókninni í síðustu leikjum og er í flottu formi.  Hún tók fjögur af fimm vítum sem við fengum og var með 100% nýtingu úr þeim.

Á heimasíðu Vals hefur nýlega verið greint frá því að ungar stelpur úr þriðja flokki hafi skrifað undir samning við Val.  Ein úr þessum hópi, Margrét Vignisdóttir, fékk að þreyta frumraun sína í leiknum gegn Aftureldingu.  Margrét reyndi sig í hægra horninu en var skipað að taka síðasta vítið sem okkur var dæmt.  Hún kláraði það vitaskuld og náði þar með úr sér sviðsskrekknum sem fylgir því að stíga fyrstu skrefin á stóra sviðinu.  Hinir táningarnir reyndu sitt til að komast líka á blað.  Guðrún Lilja gerði það með því að skora úr hraðaupphlaupi en Vigdís Birna var að komast í tímaþröng en náði því að láta reka sig út af þegar ein sekúnda lifði af leiknum.  En Vigdísi til fróðleiks þá skal bent á að það er engin knýjandi þörf fyrir varnarleik með brottrekstri þegar klukkan stendur í 29:59 í seinni hálfleik og liðið þitt er 21 marki yfir.  Sú hætta vofir yfir að brottvísunin þýði rauttspjald og þar sem hún er í leikslok þá fylgi með erindi til aganefndar og jafnvel leikbann í kaupbæti.  En  það tilheyrir því að vera ungur að vera kappsfullur og jafnvel hvatvís en reynslan kennir okkur að þekkja stað og stund fyrir átökin.

Helstu tölur:  Sigríður varði 6 skot, Berglind 18 (þar af 1 víti).  Mörk Vals: Rebekka 10, Karólína 8, Heiða 2, Kristín 9, Hrafnhildur 3, Anna Úrsúla 1, Margrét 1, Bryndís 2 Ragnhildur 2 og Guðrún Lilja 1. 

Næsti leikur stelpnanna í Olísdeildinni er gegn Gróttu á Nesinu laugardaginn 1. febrúar.  En strákarnir eiga leik fimmtudaginn 30. janúar gegn Akureyri fyrir norðan.

Áfram Valur!

26. janúar 2014

 

Sigurður Ásbjörnsson