Stelpurnar með miða í Höllina – pistill

Síðast þegar Valsstelpur mættu ÍBV í Eyjum stálu heimastelpur sigrinum á lokamínútum eftir að Valur hafði verið yfir nær allan leikinn.  Þau úrslit höfðu augljóslega mikið að segja um andlegt ástand leikmanna í gærkvöldi.  Eyjastelpur fullar sjálfstrausts eftir síðustu viðureign gegn okkur en við pínu brotnar eftir klaufalegt tap í síðasta leik og meiðsli lykilmanna en engu að síður í hefndarhug gagnvart ÍBV.  Þess utan eru bikarleikir alltaf dálítið frábrugðnir deildarleikjum þar sem "það er að duga eða drepast" stemmningin sem stýrir andrúmsloftinu.  Það er því mikið í húfi þar sem sigurvegarinn er á leið í undanúrslit Coca Cola bikarsins.

Leikurinn hófst með miklum gauragangi og voru fjögur fyrstu mörkin skoruð á sömu mínútunni.  Fyrsta korterið var algjört jafnræði með liðunum en tvær þriggja marka skorpur í seinni hluta fyrri hálfleiks gerðu það að verkum að Valur fór með þriggja marka forystu til leikhlés, 15 - 12.

ÍBV skoraði fyrsta markið í seinni hálfleik og virtist ætla að þurrka forskot Vals út í snarhasti.  En Valsstelpur svöruðu því með níu mörkum í röð og breyttu stöðunni úr 15 - 13 á 10 mínútna kafla í 24 - 13.  Eftir þessa törn var allur vindur úr Eyjastelpum og leiknum lauk 27 - 20 fyrir Val.

Sigur Valsstelpna var afgerandi og sanngjarn.  Munurinn á liðunum fólst fyrst og fremst í frábærum varnarleik Valsliðsins.  Ungfrú Lopez úr Eyjum var í gæslu frá byrjun enda hafði hún farið illa með okkur í síðasta leik.  Heiða fékk það hlutverk að taka hana úr umferð.  Hún gerði það með glæsibrag.  Engu að síður reyndi Lopez ítrekað að rífa sig lausa og tókst það nokkrum sinnum.  En þegar hún kom sér í skotfæri þá rakst hún á þéttan og háan varnarvegg þar sem Anna Úrsúla fór fyrir liðinu og varði á annan tug skota.  Lopez reyndist því ekki nema hálfdrættingur miðað við frammistöðu sína í Eyjum.

Það var flottur stígandi í Valsliðinu í leiknum.  Fyrst fannst mér eins og það væri einhver taugaveiklun í gangi.  Nokkrar sendingar fóru beint út af og í eitt skipti unnum við boltann í vörninni en honum var rúllað beint út af þar sem tveir þrír leikmenn sátu sem frosnir fyrir innan eigin punktalínu og þaðan horfðu þær á eftir boltanum.  En sem betur fer náðu stelpurnar að lyfta leik sínum á miklu hærra plan.  Sóknarleikurinn batnaði til muna í lok fyrri hálfleiks og í seinni hálfleik fengum við frábæra vörn og mörk úr öllum stöðum á vellinum.

Eins og kunnugt er þá eru lykilmenn fjarverandi vegna meiðsla.  Það hefur það í för með sér að aðrir fá aukin tækifæri til að sýna hvað í þeim býr en verða jafnframt að sætta sig við að spila stöður sem þeir eru óvanir.

Þær Anna Úrsúla og Heiða fengu að reyna sig í leikstjórn og skyttu sem er sjaldgæf sjón.  Þær komu báðar skemmtilega á óvart og leystu þetta hlutverk sérstaklega vel.  Anna Úrsúla hefur svosem alltaf verið til í að skjótast einn hring út fyrir vörn andstæðinganna og láta vaða, en í gærkvöldi fékk hún mun meira frelsi og var mjög ógnandi sem skytta.

Þá var Heiða að spila sinn besta leik á ferlinum.  Hún skoraði ekki nema eitt mark en mér fannst hreinlega að hún gerði allt rétt á vellinum.  Það er magnað að spila vörnina jafn vel og Heiða gerði og fá ekki svo mikið sem gult spjald fyrir vinnusemina.  Heiða tók Lopez úr umferð í byrjun en spilaði síðan niðri á línunni þegar við skiptum í 6-0 vörn.  Þá spilaði hún miðju í sókninni þegar ÍBV greip til þeirra örþrifaráða að taka bæði Kristínu og Hrafnhildi úr umferð. En báðar höfðu átt skínandi leik bæði sem skyttur og við að spila uppi línu- og hornamenn okkar.  Ég hvet ungar stelpur til að mæta á leiki og horfa á hvernig Heiða spilar vörn.  Þeir sem ná að leika það eftir eru í góðum málum.  En Heiða sýndi líka að hún getur verið árásargjörn.  Almennt telst slíkt ekki til mannkosta en þetta er eiginleiki sem við viljum sjá hjá sóknarmönnum í handbolta og felst vitaskuld í því að sýna dirfsku í sókninni, reyna að fara á milli varnarmanna, snúa þá af sér maður á mann og velja á milli þess að láta vaða sjálfur eða finna félaga sína.  Heiða hefur núna sýnt að hún getur spilað allar stöður á vellinum nema við eigum eftir að leyfa henni að reyna sig í markinu.

En þó ég geri hér sérstaklega mikið úr tveimur leikmönnum þá er það enginn spurning í mínum huga að það var liðsheildin sem á þennan sigur.  Markmennirnir báðir vörðu lítið en stóðu sig engu að síður báðir vel.  Ástæða lítillar markvörslu var einfaldlega frábær vörn.

Með sigrinum eru stelpurnar komnar með aðgöngumiða í Laugardalshöllina.  Framundan er undanúrslitaleikur fimmtudaginn 27. febrúar, þar skulum við spila til sigurs og tryggja okkur miða á úrslitaleikinn sem verður kl. 13:30 laugardaginn 1. mars.

Helstu tölur:  Begga varði 9 skot, Sigríður 4.  Mörk Vals: Karólína 7, Hrafnhildur 6, Anna Úrsúla 5, Kristín 4, Rebekka 2, Bryndís 1, Morgan 1 og Heiða 1. 

Næsti leikur stelpnanna í Olísdeildinni er næsta laugardag 8. febrúar.  En kl. 13:30 koma Haukastelpur í heimsókn. En strákarnir eiga leik á föstudagskvöldið kl. 8 gegn HK.  Hún er því mjög þétt hjá okkur handboltadagskráin á Hlíðarenda.

Áfram Valur!