Ótrúlegur leikur- pistill

"Lífið er eins og konfektkassi.  Þú veist aldrei hvað er í þínum mola."  Svo hljóðaði speki hins greindarskerta Forrest Gump.  En þannig er það með karlalið Vals í handbolta.  Það er einfaldlega allra veðra von þegar maður mætir á leiki Valsliðsins. 

Viðureign föstudagsins var gegn HK sem vermir botn Olísdeildarinnar.  Fyrirfram á Valsliðið að leggja botnliðið, ekki síst þar sem HK hefur misst góða leikmenn í meiðsli en þurft að kalla inn gamlar kempur til að fylla skarð þeirra.  Það var því ekkert að því að leyfa sér nokkra bjartsýni fyrir leikinn gegn HK.  Þetta var leikur sem við áttum að vinna.

En leikurinn var ótrúlegt ævintýri.  Í Valsliðinu var engan veikan hlekk að sjá og flest allt gekk upp leikinn á enda.  En hjá Kópavogsstrákum var allt í tómu tjóni fyrir utan það að þeir áttu mark leiksins þegar þeir í lokin buðu upp á sirkusmark þrátt fyrir að vera um 22 mörkum undir.

En hvað voru menn að gera í leiknum:

Hlynur sem hafði átt stórleik í síðasta leik okkar fyrir norðan stóð vaktina í fyrri hálfleik og varði 13 skot.  Markvarsla Hlyns reiknast 54,2 %.

Lárus hefur ekki fengið of mörg tækifæri í síðustu leikjum þar sem Hlynur hefur ítrekað spilað í landsliðsklassa.  Lárus fékk tækifæri í seinni hálfleik og nýtti það til hins ítrasta.  Hann jafnaði Hlyn með frábærri frammistöðu og varði 12 bolta.  Markvarsla Lárusar reiknast 66,7 % sem er fáránlega flott.

Elvar var lengstum í vinstri skyttunni í stað miðjunnar í leiknum.  Hann var tvímælalaust að spila sinn besta leik á tímabilinu.  Hann skoraði 6 mörk en hann var líka með flestar stoðsendingar eða 8.  Elvar var nokkrum sinnum kominn í hálffæri en í stað þess að reyna að skora sjálfur þá laumaði hann boltanum á félaga sína sem voru í enn betri færum (sem þeir kláruðu með marki).  Mjög óeigingjarn leikur hjá honum, flottar hreyfingar, skiptingar, hraðabreytingar og allt það besta sem Elvar á í farteskinu var komið þarna.  Það var hrein unun að fylgjast með stráknum.  Þá stökk Elvar eins og köttur á dauða bolta sem við virtumst vera að missa frá okkur.

Guðmundur Hólmar er með bestu leikmönnum deildarinnar.  Gummi átti flottan fyrri hálfleik og skoraði fjögur mörk úr jafn mörgum tilraunum.  Strákur er líkt og Geir frændi sinn að norðan með fáránlega góðan stökkkraft.  Gummi var hvíldur í seinni hálfleik enda ljóst að eins og þessi leikur þróaðist þá var gott tækifæri til að hvíla Gumma og nota leikinn til að kynda upp aðra leikmenn.

Ægir var eini útileikmaður Vals sem ekki skoraði mark í leiknum.  Því fer þó fjarri að Ægir hafi átt lélegan leik.  A.m.k. þrivar stóð ég Ægi að því að grípa háa bolta í vörninni og gefa í einni hreyfingu frábæra sendingu ýmist á Svein Aron eða Vigni sem skoruðu úr hraðaupphlaupi.  En Ægir var mjög flottur í vörninni allan leikinn.

Sveinn Aron var markahæstur í leiknum.  Það er vitaskuld algjört aukaatriði en sprettirnir hans Svenna þegar hann sér að við erum að vinna boltann eru flottir.  Eins og hann spilar þegar hann er í sínu besta standi þá held ég að landsliðsþjálfararnir þurfi að gefa honum auga.

Geir og Þorgrímur eru í mínum huga kunnir fyrir flest annað í handboltaleik heldur en öflugan varnarleik.  En í þessum leik þá tók ég sérstaklega eftir því að þar voru þeir báðir virkilega að skila sínu.  Við vitum öll að báðir eru mjög öflugir og sókndjarfir en í hröðum handbolta þurfa menn að vera færir um að spila beggja megin á vellinum.  Það gerðu þeir báðir í þessum leik.

Hér hef ég alveg sleppt því að minnast á frammistöðu þeirra Finns, Orra, Atla, Vignis, Bjarts og Alexanders.  Ástæða þess er ekki slök frammistaða þeirra, því allt Valsliðið átti frábæran leik og þeir áttu allir sinn þátt í úrslitum leiksins.  En eins og ég sagði að ofan, það var að mínu mati enginn veikur hlekkur í leik Valsliðsins.

En hvað gerir þessi leikur fyrir okkur í næsta leik?  Við eigum að mæta Haukum í bikarnum og í húfi er úrslitakeppnin í Laugardalshöll.  Það eru ýmsar hættur á ferðinni.  Við megum ekki ofmetnast.  Haukar eru miklu betri en HK og munu mæta á Hlíðarenda til þess eins að sigra okkur.  Við vorum að leggja vængbrotið lið sem endurspeglar alls ekki andstæðinga okkar í annars jafnri deild.  Í stuttu máli þá verðum við að gera okkur grein fyrir að stórsigur á HK hjálpar okkur ekkert, nema síður væri, gegn Haukum í bikarnum.  Haukarnir munu mæta dýrvitlausir til leiks og við eigum því aðeins séns í þá ef við verðum með viðhorfið í lagi.  Vissulega höfum við spilað gegn þeim tvisvar í vetur.  Við lögðum þá í fyrsta leik og glutruðum unnum leik niður í jafntefli um miðjan nóvember.  Þau úrslit hjálpa þeim mun betur en okkur við að undirbúa þennan leik.  Þeir munu mæta grimmir og eins gott að við gerum það líka.  Það er okkar eina von ef við ætlum okkur alla leið í Höllina.

Fáeinar tölur:  Hlynur varði 13 skot og Lárus varði 12 skot.  Markaskorarar Vals: Sveinn Aron 9, Elvar 6, Orri 5, Finnur 5, Vignir 5, Guðmundur Hólmar 4, Alexander 4, Atli 3, Bjartur 3, Þorgrímur 2 og Geir 2.

Næsti leikur strákanna er í COCA COLA bikarnum gegn Haukum hér í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda , mánudaginn 10. febrúar 19:30.  Fyllum húsið og hvetjum strákana til sigurs.  Munum það að í bikarnum er það allt eða ekkert.  Mulningsvél, Fálkar, Valkyrjur og allir Valsarar eru hvattir til að mæta og styðja strákana til sigurs.