Seiglusigur – pistill

Undirritaður hefur svikið Valsstelpurnar um pistla að undanförnu.  En jafnframt verið með samviskubit yfir því að skrifa í sífellu um heilsufar stelpnanna líkt og sjúkraskrár þeirra séu vistaðar á tölvunni minni.  Á þessum degi sem Íris Ásta fór í uppskurð vegna slitinna krossbanda þá væri hægur vandi að koma með nokkrar línur um heilbrigðistölfræði Valskvenna en ég ætla að hemja mig að þessu sinni og láta gott heita.

Viðureign dagsins var vitaskuld mýrarbolti af bestu gerð þar sem okkar stelpur úr gullnámunum í Vatnsmýri skyldu etja kappi gegn stelpunum úr Safamýri.  Að venju mátti búast við spennandi leik líkt og allar viðureignir liðanna hafa verið síðustu árin.

Framstelpurnar skoruðu tvö fyrstu mörkin áður en Bryndís kom okkur á blað.  Og þannig leið fyrri hálfleikur í samfellu þar sem Fram hafði frumkvæðið en við eltum og náðum í tvígang að jafna en í hálfleik höfðu gestirnir eins marks forskot, 11 - 10.

Það var ekki langt liðið á seinni hálfleikinn þegar Valsliðið tók öll völd á vellinum.  Vörnin var frábær með þær Önnu Úrsúlu og Kristínu fremsta í flokki og í markinu var Begga komin í stuð.  Þá var öll sóknin mjög skæð og fimm leikmenn Vals skoruðu sex mörk án þess að Framarar næðu að svara fyrir sig.  Við vorum því komnar með fimm marka forystu, 17 - 12 eftir 10 mínútna leik.  En fimm mörk telst ekki mikill munur í handboltaleik.  Það vissu auðvitað Framstelpurnar sem náðu þrisvar að minnka muninn í tvö mörk en nær komust þær aldrei þar sem þær Morgan og Kristín svöruðu öllum slíkum tilraunum með marki.  Að endingu voru það Valsstelpurnar sem fóru með sigur, 25 - 22, eftir baráttuleik.

Í liði Fram eigum við fyrrum samherja sem okkur er fremur hlýtt til.  Í þeirra hópi er markvörðurinn sem virtist ætla að gera fremur lítið úr skyttunum okkar í byrjun leiks.  Um miðjan fyrri hálfleik hafði hún varið 6 skot en Begga aðeins 2 okkar megin.  Í hálfleik jafnaðist tölfræðin nokkuð þegar Begga hafði varið 8 skot en Framarinn 11.  En þegar yfir lauk var Begga búin að verja 16 skot en Sunneva 14.  Fyrir utan góðan leik Beggu í markinu þá er alveg óhætt að minnast á hávörn Önnu Úrsúlu sem var fremur hófsöm í hávörninni og "bara" með 5 bolta varða. 

Kristín var stígandi eftir því sem leið á leikinn.  Hún var áberandi vinnusöm í vörninni og óð út í gráðugu skytturnar í Framliðinu hvað eftir annað og kæfði í fæðingu marktilraunir þeirra.  En að sama skapi var hún komin með blóðbragð á tunguna þegar leið á leikinn og stóð sig frábærlega í sókninni.

Tíðindi dagsins eru vísast innkoma og frammistaða Morgan sem til þessa hefur öðlast frægð fyrir að hafa leikið með bandaríska landsliðinu.  En við sem þekkjum sæmilega til yngri flokkanna í Val vitum að þar fer einn af vonarpeningum framtíðarinnar.  Morgan hefur í gegnum alla yngri flokkana verið í hópi markahæstu leikmanna í sínum flokki.  En Morgan fékk að spila stóran hluta af seinni hálfleik gegn Fram og átti skínandi leik.  Morgan skoraði 5 mörk sem er mjög gott en samt ekki það sem hreif mig mest.  Morgan tók af skarið nokkrum sinnum þegar sókn okkar virtist orðinn hálf ráðþrota og hætta á leiktöf.  Þá átti hún tvisvar eða þrisvar frábærar stoðsendingar þar sem hún fann félaga sína dauðafría á línunni og í horni.  Einnig sáum við hana vinda sig inn á línuna og koma boltanum í netið með fallegum snúningi framhjá markverði Framara.

Helstu tölur:  Berglind varði 16 skot.  Mörk Vals: Kristín 6, Morgan 5, Anna Úrsúla 5, Karólína 3, Bryndís 3, Hrafnhildur 2 og Rebekka 1. 

Næsti leikur stelpnanna í Olísdeildinni er gegn Stjörnunni í Mýrinni í Garðabæ laugardaginn 22. Febrúar kl. 16.  En strákarnir eiga leik núna á fimmtudaginn 20. janúar gegn FH í Vodafone-höllinni.