Saltkjöt og baunir – bikar! - pistill

Fréttaritarinn hljóp á harðaspani út úr matarboði í gærkvöldi eftir að hafa tekið vel á því við saltkjöt og baunir í boði með stórfjölskyldunni.  Það er vitaskuld argasti dónaskapur að hlaupa svo skyndilega frá sínum nánustu þegar helgiathöfnin stendur yfir.  En það var búið að vekja upp mikinn spenning og sigurvilja í kjölfar bikarmeistaratitils stelpnanna á laugardaginn svo það var eins gott að skella sér í Höllina og fylgjast með úrslitaleik Vals og Aftureldingar í 2. flokki í bikarnum.

Ég tel mig sæmilega kunnugan flestum leikmönnum 2. flokks þó að ég hafi ekki séð þá spila nema einn leik í vetur en þá fengu þeir háðulega útreið gegn einhverjum minni spámönnum.  Flestir kunna skil á þeim strákum sem enn eru í öðrum flokki en eru orðnir fastamenn í meistaraflokki.  Í þeim hópi eru þeir Bjartur Guðmundsson, Geir Guðmundsson (nei, þeir eru ekki bræður), Sveinn Aron Sveinsson og Alexander Örn Júlíusson.  Þá voru þrír strákar í hópnum í kvöld sem spila með þriðja flokki, þeir Sturla Magnússon, Ýmir Örn Gíslason og Guðmundur Eyjólfur Kristjánsson markvörður.  En síðan er kjarni í öðrum flokki sem ég vil kalla bankamenn.  Þar eru: Daníel (sem hefur komið við sögu í nokkrum leikjum meistaraflokks), Kristján Ingi, Kári, Helgi Karl, Valdimar, Fjölnir, Guðjón, Stefán og Baldvin.  Ástæða þess að ég kalla þessa pilta fyrir bankamenn er ekki sú að ég ætli þeim framtíð við fjármálastofnanir (ég ætla rétt að vona að þeir finni sér eitthvað meira gefandi til dundurs í lífinu) heldur að ég tel að í þeim hópi séu nokkrir strákar sem eru farnir að banka þéttingsfast á dyrnar að meistaraflokks klefanum.

Eftir að leikmenn og gestir voru búnir að syngja þjóðsönginn hófst leikurinn.  Alexander, Bjartur, Svenni og Geir komu okkur í fremur vænlega stöðu í byrjun og við með 5 - 1 forystu eftir 6 mínútur.  Mosfellingar börðust vel og náðu að jafna en Valsstrákar hertu tökin og náðu smám saman yfirhöndinni og voru í góðum málum í hálfleik þegar staðan var 16 - 12.

Framan af seinni hálfleik voru Valsmenn í fínum málum.  Við virtumst vera að landa öruggum sigri þegar forskot okkar var komið í sjö mörk.  En þá tóku Mosfellingar skytturnar okkar úr umferð og þar með voru þeir Geir og Alexander eins og áhorfendur inni á vellinum.  Herbragð Mosfellinga tókst og við vorum í nokkrum vandræðum með að leysa sóknina, en markvörður þeirra varði eins og berserkur.  En þeir söxuðu jafnt og þétt á forskot Valsstráka og komust yfir í tvígang í lokin en Sveinn Aron sá til þess að við komumst í framlengingu.

Það blés ekkert allt of byrlega fyrir okkur í byrjun framlengingar því Mosfellingar skoruðu fyrstu tvö mörkin en þá tóku þeir Daníel og Sveinn Aron til sinna ráða og skoruðu tvö mörk hvor og komu okkur í tveggja marka forystu.  Mosfellingar náðu að minnka muninn í eitt mark í lokin en lengra komust þeir ekki.  Valur hafði sigur, 34 - 33, eftir hörkurimmu.

En það var ekki fyrr en í framlengingunni sem maður hafði það á tilfinningunni að Valsliðið væri búið að leysa verkefnið með tvo leikmenn í gæslu.  Daníel var mjög ógnandi á þessum kafla sem vinstri skytta og sótti grimmt á vörnina og lét ýmist vaða á markið eða laumaði boltanum niður í hornið á Ými.  Það er á hreinu að við eigum eftir að sjá þá báða spila stóra rullu í framtíðinni.  Þeir eru gríðarmikil efni báðir tveir.

Kristján Ingi varði gríðarvel í leiknum og alls 24 skot.  Kári heillar mig með varnarleik sínum þó svo að mér finnist að Valsvörnin hafi oft verið ansi gisin í gærkvöldi.  En Kári er með mjög flottar færslur í vörninni og algjörlega með sína rullu á hreinu.  Daníel er líka mjög öflugur í vörninni en skilaði líka sínu þegar hann fékk að spila í sókninni.  Ég er á því að Daníel sé með allra mestu efnum innan félagsins ekki síst þegar haft er í huga að hann er að skríða saman eftir krossbandaslit og er fæddur 1995.

Meistaraflokksstrákarnir fjórir eru undir miklu álagi þar sem þeir spila mjög mikið með bæði meistaraflokki og 2. flokki.  Það hefur því ekki verið neinn draumur fyrir þá að lenda í framlengdum leik en þeir kláruðu leikinn með glæsibrag.  Sveinn Aron var markahæstur og fær sérstakt hrós fyrir að láta ekki markmann Aftureldingar slá sig út af laginu.  Því um miðjan seinni hálfleik virtist hann gjörsamlega vera búinn að loka á Svenna en hann sýndi mikinn kjark þegar hann tók af skarið á ögurstundu í lok leiksins.  Síðan kom það í hlut Svenna að leysa kónginn Konna af í fagnaðarlátunum eftir leik.  En Konni var víðs fjarri þar sem hann hafði verið að drolla fram eftir nóttu á konukvöldi Vals á laugardagskvöldið og hefur líklega fengið á sig útgöngubann fyrir tiltækið.

Að endingu óska ég strákunum öllum og þjálfarateyminu öllu til hamingju með bikarmeistaratitilinn.  En það voru heldur betur kanónur við stjórn liðsins í gærkvöldi, Ragnar, Heimir, Óli og Maksim.

Nokkrar tölur:  Kristján Ingi varði 24 skot.  Mörkin: Sveinn Aron 9, Geir 7, Alexander 5, Bjartur 5, Daníel 4, Helgi Karl 3 og Ýmir 1.

Áfram Valur!