... og ártal á vegginn – pistill

Það var fallega gert af henni Karólínu að bjóða okkur öllum í afmælið sitt.  Rautt þema upp úr hádegi á laugardegi klikkar ekki.  Veðrið gott, sól á himni og vorfiðringurinn farinn að kitla magann.  Það var því engin ástæða til að mæta með ólund á úrslitaleik bikarkeppninnar.

Rétt eins og afmælisbarnið fær fyrstu sneiðina af afmælistertunni þá hefði mér fundist eðlilegast að Karólína hefði átt fyrsta markið.  En þær Kristín, Morgan og Rebekka fóru fram fyrir í röðinni áður en afmælisbarnið komst á blað.  En leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi fyrstu 45 mínúturnar.   Lengstum voru það Stjörnustelpurnar sem leiddu en aldrei voru þær nálægt því að stinga okkur af.  Þær höfðu eins marks forskot í hálfleik, 10 - 9.

Í byrjun seinni hálfleiks náðu Stjörnustelpurnar mest þriggja marka forystu en þrátt fyrir það var engan beyg að sjá á Valsstelpum enda engin ástæða til því Stjarnan var, þrátt fyrir forskotið, alls ekki sannfærandi í sínum aðgerðum.  Valsstelpurnar jöfnuðu leikinn tiltölulega hratt en síðan tók við 10 mínútna kafli þar sem liðin skiptust á að skora.  En um miðjan hálfleikinn tóku Valsstelpur öll völd á vellinum.  Þær röðuðu inn mörkum og fengu eingöngu tvö á sig á síðustu 15 mínútum leiksins.  Þar af kom annað úr víti.  Það var ekki liðið langt á þennan lokakafla þegar það sást á svipbrigðum reynsluboltanna í Valsliðinu að þessi leikur skyldi kláraður með sigri.  Enda risu Valsstelpurnar upp hver á eftir annarri og lögðu í púkkið.  Afgerandi sigur eftir mikinn stíganda í leik Valsliðsins, úrslitin 24 - 19 fyrir Val.

Begga stóð lengstum í markinu og varði eins og berserkur.  Hún var með 20 bolta en þar af voru líklega um 5 sem Anna Úrsúla var búin að forverja.  Anna gæti sem best tekið upp starfsheitð forvörður í símaskránni.  En hún var ekki eingöngu frábær í vörninni heldur brilleraði hún líka í sókninni.  Hún var markahæst með 8 mörk sem hún ýmist skoraði af línunni eða með uppstökki utan varnar.  Hún óx gríðarlega í sókninni eftir því sem leið á leikinn.  Í lokin átti Anna skot úr uppstökki sem Stjörnumarkvörðurinn varði en frákastið fór beint í lúkurnar á Bryndísi og hún skoraði af miklu öryggi.  Annars fékk Bryndís ekki mikinn spilatíma í sókninni en spilaði nær allan leikinn í vörn og gerði það glimrandi vel.

Karólína var flott í horninu og náði greinilega að pirra Flóru dálítið þar sem hún hausaði hana aftur og aftur þar sem hún sveif inn úr horninu og setti boltann ítrekað í glufuna við hliðina á höfðinu á henni.  Morgan virkaði dálítið óstyrk til að byrja með en hún skoraði strax í upphafi leiksins sem var mjög mikilvægt til að halda Stjörnunni við efnið.  En Morgan átti líklega mark leiksins undir lokin þegar hún smellti boltanum í rammann og inn.

Fyrirfram hafði ég af því nokkrar áhyggjur að svo þéttir leikir væru erfiðir fyrir aldursforsetana okkar.  Fyrirkomulag bikarúrslitana hentaði ekki endilega okkar stelpum.  En þær stöllur Kristín og Hrafnhildur afsönnuðu það fyrir mér.  Kristín sem hafði átt frábæran leik gegn Haukum var aldeilis ekki dauð úr öllum æðum.  Þó svo að hún hafi bara skorað tvö mörk þá var hún sívinnandi og ógnandi bæði í vörninni og sókninni.

Þeir eru ekki margir leikirnir sem Hrafnhildur spilar án þess að skora en þau tíðindi gerðust í leiknum gegn Haukum þó svo að hún hafi átt prýðilegan leik og spilað vel.  En í úrslitaleiknum var auðsýnt að hún ætlaði sér meira.  Tempóið óx hjá henni allan leikinn og hún varð djarfari og gráðugri eftir því sem á leið.  Þegar Hrafnhildur hleypur til baka í vörnina  með hnefann á lofti eftir að hafa skorað og sendir okkur stuðningsmönnunum kveðju á baka leiðinni þá líður okkur eins og við séum mættir inná og maður upplifir sig algjörlega sem hluta af liðinu.  Það er einhver skemmtilegasta stund sem ég finn fyrir á handboltaleikjum og maður tekur eftir því allt í kringum sig að hvatningarópin hækka um nokkur desibil.

Sigurtilfinningin í lokin var alveg yndisleg og ekkert undarlegt við það að sjá Óskar Bjarna rúlla eins og teinahjól á Gamla Ford þegar hann fór á handahlaupum fyrir framan stuðningsmenn Vals.  Ef eitthvert ykkar á eftir að sjá mun á göngulagi Óskars á næstunni þá er skýringin vafalaust tognun eftir ærlega tilraun hans til að skella sér í splitt í gleðivímunni.

En þvílíkur dagur.  Afmæli, titill, bikar og hálsmen á línuna og þar með nýtt ártal á vegginn góða.  Ég hef það á tilfinningunni að Karólína eigi eftir að muna eftir þessum afmælisdegi um nokkra hríð.

Áfram Valur!

 

Ps.

Þegar Stjörnustelpurnar voru að taka við silfrinu þá hrópuðum við stuðninsmenn Vals hvatningaróp til þeirra.  En einhverjir úr hópi stuðningsmanna þeirra töldu að við værum með þessu að gera hróp að þeim með niðrandi og ósæmilegum hætti.  En ef svo ólíklega vildi til að einhver úr Stjörnunni lesi þessar línur þá vil ég fyrir hönd okkar Valsmanna koma því til skila að okkur gekk ekki nema gott eitt til og þetta var okkar leið til að þakka fyrir leikinn og sýna Stjörnustelpunum virðingu.