Hefndin er sæt – pistill

Síðari viðureign dagsins var á milli karlaliða Vals og ÍBV.  Ekki hef ég yfirheyrt vitni um það hvernig stóð á sneypuför strákanna til Eyja þar sem þeir töpuðu með fjórum mörkum eftir að hafa verið 7 mörkum undir þegar verst lét.  Miðað við upplýsingar úr fjölmiðlum virtust þremenningarnir Elvar, Guðmundur Hólmar og Geir sem að öllu jöfnu eru meðal markahæstu manna hafa verið fjarri sýnu besta nema þá að undirbúningur Eyjamanna hafi miðað að því að halda þeim niðri og þau áform gengið upp.

Um það leyti sem leikurinn hófst stormuðu nokkrir tugir af ungum mönnum í rauðum treyjum inn á svalirnar og komu sér fyrir í vestasta hluta stúkunnar.  Þetta voru vitaskuld þeir félagar úr Mulningsvélinni sem er mætt til leiks eftir nokkra vikna fjarveru.  Það var frábært að sjá þá storma inn á pallana og þá ekki síður að sjá Baldur bongó mættan á báða leikina með kjuðana sína til að sjá til þess að allir haldi takti.  Baldur okkar er einfaldlega flottasti stemmningstrommari landsins sem sýnir sig kannski hvað best í því að þegar hann tekur leggjarbongósólóið sitt langar jafnvel undirritaðann sem er í hópi verstu dansara á norðurhveli jarðar til að stökkva upp á svið og dansa sóló.

Þrátt fyrir þessa flottu umgjörð þá var gríðarleg spenna í húsinu.  Menn voru augljóslega ekki mættir til að fagna sumri í von um að varp lóunnar tækist vel eða að lundastofninn væri að braggast.  Menn virtust vera að halda í orustu upp á líf og dauða sannfærðir um að þeir yrðu órétti beittir.

Það voru Eyjapeyjar sem virtust ráða betur við spennuna í upphafi.  Þeir skoruðu fyrstu tvö mörkin og það var okkar að elta rétt eins og stelpurnar gerðu í byrjun á sínum leik tveimur tímum fyrr.  Það tók okkur sömu tíu mínútur og stelpurnar að komast yfir í leiknum.  En Eyjamenn náðu í tvígang að jafna leikinn fyrir hlé en aldrei fóru þeir framúr okkur.  Í hálfleik var staðan 15 - 13 fyrir Val og seinni hálfleikur vannst með sama mun og úrslit leiksins því 28 - 24 fyrir okkur.

Hlynur stóð í markinu allan tímann og varði 19 skot.  En þar af voru nokkur sem hann varði einn á móti manni þegar maður reiknar alls ekki með því að markvörður verji.  Slíkar vörslur gera meira en að koma í veg fyrir mark því þær draga úr sjálfstrausti þess sem skaut en blæs jafnframt baráttuhug í samherjana.  Það var því skiljanlegt að þeir félagar í Mulningsvélinni syngju ítrekað hátt og snjallt Hlyni til heiðurs.

Þeir þremenningar, Elvar, Guðmundur Hólmar og Geir sem jafnan eru í lykilhlutverki í markaskorun bættu sinn hlut verulega frá viðureigninni í Eyjum en þar var Geir eini maðurinn sem komst á blað með 1 mark en að þessu sinni voru þeir með 10 mörk samtals.  Þó svo að Guðmundur hafi ekki skorað nema 1 mark þá var hann meðal bestu manna í vörninni eins og oft áður.

Atli Már var að mínu mati að spila sinn besta leik á tímabilinu.  Það má almennt ganga að því vísu að Atli leggur sig fram þegar hann er inni á vellinum.  Hann lagði sitt ríkulega af mörkum að þessu sinni.  Þegar allir héldu að sóknin væri búin eftir að markvörður Eyjamanna hafði varið skot utan af velli þá sá Atli boltann í loftinu í teignum og blakaði honum með bakhandarhreifingu yfir línuna.  Síðan átti hann síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar hann tók þrjú tröllaskref frá miðjunni og stökk hátt í loft fyrir utan teig og lét vaða á markið.  Boltinn fór beint í mark og við Valsmenn gengum glaðir til hlés.

Þorgrímur kom við sögu í seinni hálfleik.  Þegar ekki þótti á það reynandi að nota Alexander á helsta álagspunkti varnarinnar eftir tvær brottvísanir í fyrri hálfleik.  Toggi stóð sig frábærlega og leysti sitt hlutverk með mikilli prýði.  Ég sé ástæðu til að nefna þetta sérstaklega þar sem mér hefur stundum sýnst Toggi koma yfirspenntur inn í leiki eftir vist á bekknum og fyrir vikið fengið aulalega brottvísun.  En ekki á þessari vakt.  Vel gert Toggi. 

En það er hægt að halda áfram og minnast á:

Flotta innkomu Ægis, hraðaupphlaupið hans Orra, frábæra færið hans Daníels Þórs (Danni þú áttir að setjann þarna) sem hann skapaði úr engu, vinnusemina hans Vignis við að halda Hostert ísköldum og ýmislegt fleira.  En nú er komin nótt.

Fáeinar tölur:  Hlynur varði 19 skot.  Markaskorarar Vals: Finnur Ingi 6, Geir 6, Atli Már 5, Orri 3, Alexander 3, Elvar 3, Guðmundur Hólmar 1 og Ægir 1.

En kæru Valsmenn bæði karla og kvennaliðin okkar eru eiga að spila gegn Eyjakörlum og - kerlum úti í Eyjum á sunnudaginn.  Ég ætla til Eyja og hvet ykkur til koma líka.  Ég veit að það er verið að skoða möguleikann á því að vera samferða að Landeyjahöfn því Herjólfur er farinn að sigla þaðan. 

Áfram Valur!