Ágætis byrjun – pistill

Gleðilegt sumar kæru Valsmenn!

Þá er veturinn að baki og sumardagurinn fyrsti runninn upp.  Verkefni dagsins voru tvær viðureignir við ÍBV.  Stelpurnar áttu fyrri leikinn.  Þegar undirritaður leit á tölvupóstinn í morgun kom í ljós að Herjólfur hafði sent mér yfirlit yfir breytingu á siglingum sínum.  Það sem eftir er vetraráætlunar verður siglt frá Landeyjahöfn.  Um leið og ég las þessi skilaboð hugsaði ég með mér að ef Valsliðin ynnu sínar viðureignir gegn ÍBV í dag, þá kæmi ég til Eyja á sunnudaginn og hvetti liðin áfram og kæmi síðan raddlaus af hæsi í land um kvöldið.

Það vakti athygli að Eyjastelpur spiluðu með sjö manna sókn frá fyrstu mínútu.  En í því felst að markmaðurinn hvílir á meðan liðið spilar sókn en í hans stað er bætt sóknarmanni og hann klæddur í götótt vesti.  Í fyrstu sókn virtist herbragðið ætla að ganga upp því ungfrú Lopes sem allt snýst um í þeirra liði skoraði strax á fyrstu mínútu.  Og fram í miðjan hálfleik voru það Eyjastelpur sem höfðu frumkvæðið en við fylgdum í humátt á eftir.  Aldrei var munurinn meiri en tvö mörk.  En um miðjan hálfleikinn voru vitleysistæknifeilarnir að baki eftir brösuga byrjun, auk þess sem Jenný sýndi mikinn stíganda í markinu.  Frá tíundu mínútu og fram í hálfleik skoraði Valsliðið sex mörk en fékk á sig tvö.  Við vorum því með smá forskot í hálfleik, 9 - 7.

Seinni hálfleikur byrjaði mjög vel, því við skoruðum fimm fyrstu mörk hálfleiksins.  Þar með var forysta okkar orðin 7 mörk og meiri varð hún ekki því það sem eftir lifði leiks skiptust liðin á að skora.  Að endingu lauk leiknum með fjögurra marka sigri okkar Valsstelpna, 21 - 17, eftir að Eyjastelpur náðu að skora þrjú mörk í röð undir lok leiksins.

Jenný stóð lengstum í markinu og fór hægt af stað en var mjög stígandi og þegar upp var staðið var hún með um 50 % markvörslu.

Anna Úrsúla átti skínandi góðan leik, bæði í vörn og sókn.  Hún var næst markahæst með fjögur mörk og var að venju yfirburðamaður í vörn.  Það er mjög gott að fá Önnu spila svona vaxandi inn í úrslitakeppnina.  Það er áberandi stígandi í leik hennar og frábært að það sé að gerast akkurat á þessum tímapunkti í úrslitakeppninni.

Kristín var markahæst með fimm mörk.  En til að byrja með fannst mér hún lek í vörninni en það gjörbreyttist eftir því sem leið á leikinn.  Eyjastelpur áttu ekki roð í hana þegar hún var búin að gíra sig í sinn rétta ham.

Fyrir utan ótrúlega mikið af tæknifeilum og aulalegum mistökum á borð við að afleitar sendingar og klúður í dauðafærum þá er eitt atriði sem við þurfum að laga fyrir næstu viðureign.  Þegar ÍBV spilar sóknirnar sínar án markvarðar þá felast í því tækifæri fyrir okkur.  Fjórum eða fimm sinnum unnum við boltann án þess að þær náðu að skipta markverðinum inn á.  Tvisvar reyndum við langskot án þess að skora.  Í annað skiptið varði varnarmaður ÍBV lágt skot á línu en í hinu tilfellinu hittum við ekki markið.  En a.m.k. tvisvar sáum við ekki að mar þeirra stóð autt.  En ég er þess fullviss að stelpurnar og þjálfararnir verði búin að laga þetta fyrir næsta leik.  Þarna voru útsölumörk í boði sem við nýttum okkur ekki.

Helstu tölur:  Jenný varði 16 skot.  Mörk Vals: Kristín 5, Anna Úrsúla 4, Hrafnhildur 3, Rebekka 2, Morgan 2, Bryndís Wöhler 2, Karólína 1 og Sigurlaug.

Næsti leikur úrslitarimmunnar er í Eyjum á sunnudaginn 27. apríl kl. 16.  Þangað skulum við fjölmenna og hvetja stelpurnar áfram.

Áfram Valur!