Kæru Valsarar

Nú þegar íslandsmótið er handan við hornið finnst okkur tilvalið að láta frá okkur smá pistil um hvernig undirbúningurinn hefur verið hjá okkur í vetur og fleira.

Við hófum æfingar í byrjun nóvember eins og vaninn er og fóru menn mis hratt af stað. Þeir yngri byrjuðu af miklum krafti á meðan þeir sem spiluðu mikið 2013 fóru sér aðeins hægar. Við spiluðum nokkra leiki fyrir áramót þar sem margir ungir leikmenn fengu tækifæri og stóðu sig vel. Tókum þátt í futsal (íslandsmótinu innanhúss) með fínum árangri og höfðum gaman af.

Eftir áramót byrjuðu æfingar af miklum krafti og fyrsti leikur í Reykjavíkurmóti var 10.jan. Leikmennirnir hafa æft gríðarlega vel í vetur/vor og lagt mikið á sig. Eftir áramót höfum við spilað nánast í hverri einustu viku og margir leikmenn hafa fengið tækifæri á að sýna sig og sanna.

Valur fór í æfingaferð til Flórída í USA og vorum þar á svæði IMG academy við algerlega frábærar aðstæður. Spiluðum þar tvo leiki við sterk lið og æfðum mjög vel. Virkilega vel heppnuð ferð í alla staði og alls ekki ólíklegt að þessi áfangastaður sé kominn til að vera.

Eftir æfingaferðina hefur álagið á leikmennina verið aðeins léttara og menn að safna kröftum fyrir það sem skiptir mestu máli, sem er Íslandsmótið.

Það hafa ekki orðið miklar breytingar á leikmannahópnum fyrir þetta tímabil sem við þjálfararnir erum mjög ánægðir með, en þó hafa orðið nokkrar hrókeringar eins og eðlilegt er.

Við höfum misst þá Matthías Guðmunds, Jónas Næs, Stefán Ragnar, Patrick Pedersen af þeim sem spiluðu í fyrra. Nokkrir ungir og efnilegir valsmenn hafa síðan farið á lán til að sækja sér dýrmæta reynslu og við gerum ráð fyrir þeim enn sterkari þegar þeir koma til baka.

En þeir sem gengu til liðs við okkur frá fyrra tímabili eru þeir Halldór Hermann, Kristinn Ingi sem komu báðir frá Fram og svo gekk Mads Nielsen til liðs við okkur á láni frá Brondby í Danmörku. Þá samdi Valur aftur við nokkra að þeim erlendu leikmönnum sem voru í fyrra. Einnig gengu til liðs við okkur 3 mjög efnilegir leikmenn en það eru þeir Anton Ari markmaður frá Aftureldingu, Gunnar Gunnarson og Fannar Bjarki.

Við teljum að undirbúningur liðsins fyrir þetta íslandsmót hafi tekist mjög vel í alla staði. Liðið hefur æft mjög vel og við finnum mikla tilhlökkun og samheldni í hópnum. Leikmannahópurinn er mjög sterkur og ekkert sem ætti að standa í vegi fyrir því að við náum okkar markmiðum í sumar. Við stefnum hátt eins og félag eins og Valur á alltaf að gera og allt annað en Evrópusæti eru vonbrigði að okkar mati.

Við þjálfarar, leikmenn, stjórnarmenn og allir sem standa að liðinu vonum innilega að þetta verði frábært Valssumar. Við munum leggja allt í sölurnar til að ná okkar markmiðum og í leiðinni vera okkur og félaginu til sóma í einu og öllu.

Það er okkar einlæga ósk að þið stuðningsmenn og velunnarar félagsins mætið á alla/flesta okkar leiki í sumar. Þið skiptið okkur miklu máli og saman getum við áorkað frábærum hlutum í sumar.

 

Með von um frábært Valssumar

Magnús Gylfason þjálfari og Halldór Jón Sigurðsson (Donni) aðstoðarþjálfari.