Valur Íslandsmeistari í 5.fl.kk 2013-2014 - pistill

Síðastliðna helgi 25.-27. april fór fram síðasta Íslandsmeistaramót hjá strákunum á eldra ári í 5. flokki. Að venju var Valur skráð með tvö lið. Mótið var haldið á vegum HK.

 

Valur 1 - 1.deild

Fyrir mótið var mikil spenna í 1.deild þar sem þrjú lið gátu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn, Valur 1, FH og KA en öll liðin hafa unnið tvö mót á tímabilinu.

Strákarnir spiluðu tvo leiki á föstudag og tvo á laugardag. Fyrsti leikurinn á föstudag var á móti Fjölni þar sem strákarnir ákváðu strax í upphafi að sýna hvað í þeim býr. Leikurinn endaði með öruggum sigri Valsara 20-9. Seinni leikurinn var svo á móti FH en þar héldu strákarnir áfram að spila hörku handbolta og unnu einnig þann leik nokkuð örugglega 20-11.

Á laugardaginn mættu Valsararnir baráttuglöðum KA-mönnum í hörkuleik sem var jafn nánast allan tímann. Það var ekki fyrir en um miðbik seinni hálfleiks sem Valsararnir tóku leikinn í sinar hendur og unnu að lokum 17-14. Síðasti leikurinn var svo á móti Fram, í þeim leik virtist eins og strákarnir væru orðnir eitthvað þreyttir því þeir mættu alls ekki til leiks. Annað var uppá teningnum hjá baráttuglöðum Frömurum sem ætluðu að veita Völsurum drengilega keppni. Fram var með forystu fyrrihluta leiks en að lokum náðu Valsararnir að tryggja sér sigur í leiknum 18-17 og vinna 1.deild og um leið tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Með þessu náðu strákarnir að verja titilinn frá því í fyrra en þessi hópur hefur orðið Íslandsmeistari síðastliðin 4 ár.

Til gamans má nefna að þessi sami hópur spilaði einnig í 4.fl þar sem þeir komustu alla leið í 4-liða úrslit í bikarkeppni yngra árs og tóku þátt í 8-liða úrslitum á Íslandsmeistararmóti yngra árs.

 

Valur 2 - 2.deild

Valur 2 spilaði í 2.deild með ÍR 2, KR 1, UMFA 1 og Gróttu 1. Hörku deild með sterkum liðum. Valur 2 spilaði alla sína leiki á laugardag, ekki náðu strákarnir að vinna deildina en börðust eins og ljón og voru á köflum með leikina í sínum höndum.

Flottir strákar með frábæran karakter og gríðarlega handboltahæfileika. Þeir eiga framtíðina fyrir sér í greininni.

 

Þjálfari,

Maksim Akb.