Hrafnhildur stígur til hliðar – pistill

Ég hef fyrir því heimildir að Hrafnhildur Ósk Skúladóttir hafi mætt á sína fyrstu handboltaæfingu árið 1988 en nú 26 árum síðar stendur hún á tímamótum þar sem hún hefur ákveðið að láta gott heita.

Hrafnhildur er alin upp í Breiðholtinu og kynntist handboltanum fyrst í yngri flokkum ÍR. Síðar lá leiðin í Hafnarfjörð áður en hún hélt til Danmerkur þar sem hún spilaði í áraraðir. Hrafnhildur hafði stutta viðdvöl hjá okkur í Val árið 2001 en kom aftur til liðs við okkur árið 2008 og er búin að spila með okkur samfellt undanfarin 6 ár.

Hver var svo uppskeran eftir 26 ár í handbolta? Hún er dágóð. Hrafnhildur hefur á þessum árum m.a.:

  • verið fyrirliði Valsliðsins í áraraðir.
  • orðið Íslandsmeistari með Val árin 2010, 2011, 2012 og 2014.
  • orðið bikarmeistari með Val árin 2012, 2013 og 2014.
  • spilað fleiri landsleiki en nokkur önnur handboltakona á Íslandi eða 170 leiki.
  • skorað fleiri mörk fyrir kvennalandsliðið heldur nokkur annar leikmaður eða 620.
  • verið lykilleikmaður með íslenska kvennalandsliðinu sem var að spila í fyrsta skipti á stórmóti árið 2010 á EM í Danmörku og Noregi .
  • verið fyrirliði landsliðsins á HM í Brasilíu 2011 og EM í Serbíu 2013.
  • þjálfað bæði stráka og stelpur í yngri flokkum í handbolta.
  • verið kjörin Íþróttamaður Vals árið 2010.
  • verið kjörin Íþróttamaður Reykjavíkur árið 2011.

En nú eru vatnaskil hjá Hrafnhildi.  Keppnisferillinn er að baki og vafalaust taka önnur verkefni við.  A.m.k. er erfitt að sjá Hrafnhildi fyrir sér með hendur í skauti.  En við Valsmenn erum í senn þakklátir og stoltir af þessum magnaða leikmanni sem hefur gefið svo ríkulega af sér og verið frábær leiðtogi Valsstelpna undanfarin ár.

Takk fyrir allt Hrafnhildur.