Mfl. karla: Frábær sigur á ÍBV

Valsmenn léku á als oddi þegar þeir sigruðu ÍBV 3:0 á Hlíðarenda í kvöld. Yfirburðir Vals voru miklir og spilamennskan til fyrirmyndar. Boltinn gekk vel á milli manna og varnarleikurinn var þéttari en í síðustu leikjum.

Haukur Páll skoraði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu þegar markmaður Eyjamanna missti boltann fyrir fætur hans eftir fyrirgjöf frá Magnúsi Má.

Það var síðan miðvörðurinn Þórður Steinar sem skoraði annað mark leiksins á 34. mínútu með fínu skoti úr vítateignum eftir aukaspyrnu utan af kanti. Þetta var fyrsta deildarmark Þórðar Steinars fyrir Val, en hann kom til félagsins í júlí eftir níu ára fjarveru.

Patrick Pedersen rak síðasta naglann í kistu lánlausra Eyjamanna á 54. mínútu. Valsmenn áttu laglegan samleik áður en Kristinn Freyr átti góða sendingu inn fyrir vörn ÍBV þar sem Patrick kláraði færið af miklu öryggi.

Valsmenn eru þar með aftur komnir í 5. sæti deildarinnar með 24 stig. Víkingur er fimm stigum á undan í 4. sæti, sem gefur Evrópusæti, en Valsmenn sækja einmitt Víkinga heim í næsta leik. Sá leikur verður 14. september klukkan 17.00.

Allt er mögulegt. Áfram Valur!

Byrjunarlið Vals: Anton Ari - Billy, Magnús Már, Þórður Steinar, Bjarni Ólafur - Haukur Páll, Iain, Tonny (87. Gunnar), Sigurður Egill (76. Halldór Hermann) - Kristinn Freyr (81. Kristinn Ingi), Patrick.

Ónotaðir varamenn: Fjalar, Gunnar Patrik, Haukur Ásberg og Darri.