Það fer að hlýna aftur ...

Síðasta sumar var ekki sérstaklega heitt á Íslandi, og það sama átti við á knattspyrnuvöllum að Hlíðarenda, við vitum það flest. Það kom smá sólarglæta strax í upphafi Pepsi-deildarinnar hjá meistaraflokki karla, reyndar svo mikil að hún blindaði KR-inga í Laugardalnum eins og ógleymanlegt er. Hins vegar dró fyrir sólu strax í næsta leik gegn Keflavík.

Mikill óstöðugleiki einkenndi karlaliðið, sigurleik fylgdi ávallt jafntefli eða tap. Það var ekki fyrr en í kringum Verslunarmannahelgina að tveir sigurleikir í röð náðust (í Keflavík 1-2, 27.7., og  gegn Fjölni 4-3, 6.8.)
Hinir tveir sigurleikirnir í röð komu svo í lok ágúst. Það er í raun ótrúlegt að allt fram að síðasta leik hafi verið raunverulegur möguleiki á að ná fjórða sætinu sem gaf Evrópusætið eftirsótta. Við sem fylgdumst með í sumar vitum niðurstöðuna, 5.sæti annað árið í röð. Áhyggjuefni var að í ár var markatalan í mínus 5, á móti plús 14 sumarið 2013.

Meistaraflokkur kvenna átti vonandi algjört undantekningar ár, sæti nr. 7 takk fyrir! Þetta er sögulega dapur árangur því leita þarf aftur til ársins 2000 til að finna Valskonur ekki meðal fjögurra efstu liða. Árið 2000 lendir Valur í 5.sæti. Öll önnur ár frá 1992 hefur meistaraflokkur kvenna verið í topp fjórum í efstu deild kvenna. Við vitum að það er uppbyggingarstarf í gangi hjá konunum, og vonandi er það á réttri leið,  Þór Hinriksson, drengur góður, stýrir liðinu. Stuðningur við ungt kvenna lið okkar skiptir máli næsta sumar.

Ef við víkjum aftur að karlaliðinu, þá var að mínu mati einn leikur sem var algjör núllpunktur yfir allt tímabilið. Vissulega töpuðumst allt of margir leikir í sumar, en sé horft eingöngu á spilamennsku liðsins var þessi tiltekni leikur sá versti sem ég sá þetta sumarið. Ég er að tala um útileikinn við Fram, mánudagskvöldið 11. ágúst. Það var kalt í stúkunni og því miður hlýjaði spilamennska okkar drengja ekki neitt. Jafn mikið andleysi hafði ég vart séð hjá Valsliði. Það var líkt og leikmenn væru týndir á vellinum, ekki að berjast fyrir félagann né stuðningsmenn. Þetta var fyrsta tapið af þriggja leikja taphrinu sem fór ekki vel í neinn stuðningsmann Vals.

Það er mín trú að nú séu ákveðin kaflaskil í meistaraflokki karla með tilkomu nýrra þjálfara. Ef það er einhver maður sem getur komið með enn meiri Valsanda inn í hópinn er það Sigurbjörn Hreiðarsson, leikjahæsti leikmaður Vals frá upphafi.  Flestir stuðningsmenn vita alveg hvað "Bjössi" stendur fyrir, það verður ekkert gefið eftir á vellinum næsta sumar.
Ólafur Jóhannesson hefur gríðarlega reynslu af þjálfun og fleiri enn einn Íslandsmeistaratitil. Því er afskaplega hæft teymi komið til starfa. Við megum heldur ekki gleyma endurkomu Matthíasar Guðmundssonar, eða bara Matta eins og stuðningsmenn segja. Síðastur, en ekki sístur, Salih Heimir Porca sem tekur 2. flokk Vals, gríðarlega flottur þjálfari en ekki síður frábær maður.

Nú á næstu mánuðum mun fréttaflæði af meistaraflokkunum aukast, fleiri viðtöl og efni sem færir liðið nær okkur stuðningsmönnunum. Það er stefna og vilji allra sem koma að meistaraflokkunum að gera betur en síðasta sumar. Það verða ALLIR að leggjast á eitt, leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn en ekki síst stuðningsmennirnir. Stuðningurinn úr pöllunum skiptir gríðarlegu máli og getur skipt sköpum við að gera Vodafone-völlinn aftur að þeirri gryfju sem þarf.

Það fer að hlýna aftur á að Hlíðarenda næsta sumar, ég er sannfærður um það, tökum öll þátt í því. 

Áfram Valur, áfram hærra,
Ragnar Vignir