Pistill frá Formanni okkar. Þorgrímur Þráinsson

MEÐ SIGURVEGARANN Í HJARTANU

 

Oftar en ekki ber fólk það með sér á hvaða leið það er í lífinu. Það sést á göngulaginu, framkomunni, augnaráðinu, kurteisinni, ákveðninni, auðmýktinni, heiðarleikanum. Og þetta á við um fólk hvort sem það stundar íþróttir eða ekki. Nýkrýndir Íslandsmeistarar Vals í handbolta hafa borið það með sér undanfarnar vikur að þeir ætluðu ALLA LEIÐ. Það var augljóst, að mínu mati. Mig langaði að skrifa þessa grein fyrir tveimur vikum en ég ákvað að bíða með það til að storka ekki örlögunum.

    Liðið var ekkert sérstakt síðastliðið haust en það hefur heldur betur látið til sín taka undanfarnar vikur og mánuði. Leikmenn hafa eflst við hverja raun, þurft að takast á við ýmsar brekkur, ósanngirni, óheiðarleika, en aldrei misst trú á sjálfum sér, liðinu, félaganum sér við hlið sem fórnar sér fyrir heildina. Leikmenn hafa notið stuðnings öflugrar stjórnar, áhorfenda, sjálfboðaliða sem hafa lagt sitt af mörkum. Og þjálfaranna, sem eru leiðtogar fram í fingurgóma. Yfirvegaðir og glaðir leiðtogar.

    Það hefur verið fróðlegt að ræða við handboltamennina að Hlíðarenda undanfarnar vikur því þeir voru með ÍSLANDSMEISTARATITILINN í augnaráðinu. Hvernig þeir töluðu, æfðu, brostu, leiðbeindu yngri iðkendum, töluðu sín á milli. Og ekki má gleyma GLEÐINNI, sem er forsenda þess að ná árangri, innan vallar sem utan. Það að hafa gaman af hlutunum gleymist stundum í alvarleika leiksins. Ef íþróttaiðkun er það skemmtilegasta sem fólk leggur stund á -- hvað er þá að óttast? Þegar menn gleyma sér í gleðinni, njóta augnabliksins, gera sitt besta, þá standa þeir alltaf uppi sem sigurvegarar, burtséð frá því hver úrslitin verða.

    Það er ekkert ókeypis í þessu lífi, eins og við vitum, þótt við viljum fá ýmislegt upp í hendurnar án þess að hafa fyrir því. Allir vilja blómstra sem einstaklingar en það að leggja EGÓIÐ á hilluna fyrir liðið sitt, Valsliðið, er aðdáunarvert og öðrum til eftirbreytni. Þannig voru strákarnir okkar í vetur. Þeir hlupu inn á völlinn hver fyrir annan, börðust hver fyrir annan, töpuðu saman og sigruðu saman. Þannig eru Íslandsmeistarar, þannig eru sigurvegarar í lífinu. Þeir láta engan bilbug á sér finna -- þótt þeir tapi einum og einum leik. Það er nauðsynlegt að eiga sér lokatakmark, MARKMIÐ, en það rætist ekki nema leikmenn njóti ferðalagsins. Það er mikilvægast að vera meðvitaður um hvert augnablik, þekkja sína styrkleika og veikleika, útiloka allt áreiti og standa saman sem EINN MAÐUR.

    Þannig er Valur og þannig mun Valur vera, alltaf. Valur er heilbrigt samfélag þar sem hver og einn á að geta blómstrað á eigin forsendum. Leikmenn meistaraflokks eru mikilvægar fyrirmyndir, mun mikilvægari en þeir gera sér grein fyrir. Þeir eru andlit félagsins út á við og allir yngri iðkendur líta upp til þeirra. Þeir varða veginn og ÍSLANDSMEISTARARNIR, eru einstaklega flottar fyrirmyndir í félaginu okkar.

    Til hamingju, þið allir og við öll. Áfram hærra!