Valssigur í hörkuleik! Valur - KR 2 - 1

Valur - KR      2 - 1     (2 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 4. umferð.   Valsvöllurinn að Hlíðarenda,   mánudaginn 22. maí 2017, kl. 20:00

Aðstæður: Góðar, hitastig  12°c, austan stinningsgola, 6  m/sek.   Áhorfendur:   1443

Dómari: Þóroddur Hjaltalín. Aðstoðardómarar: Frosti Viðar Gunnarsson og Eðvarð Eðvarðsson

 

Áhuginn var ekki síðri fyrir þessum leik en FH- leiknum fyrir viku síðan enda   hafa viðureignir Vals og   "Vesturbæjarstórveldisins", eins og  KR-ingar  kjósa að kalla sig, jafnan verið magnaðar og var engin undantekning gerð á því að þessu sinni. Hinir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína að Hlíðarenda fengu hörkuleik sem bauð upp á aragrúa marktækifæra, mikla baráttu og á köflum skemmtilegt spil hjá báðum liðum.

KR-ingar  byrjuðu leikinn mun betur, fengu tvær  aukaspyrnur  dæmdar rétt utan vítateigs á upphafsmínútunum og   á 7. mín fékk  Kennie  Chopart  frían  skalla  frá markteig eftir góða sendingu Óskars Arnars, sannkallað dauðafæri sem Anton Ari, viðbragðsskjótur að vanda, náði að blaka í horn.  Valsmenn  máttu sannarlega hrósa happi yfir að mark þeirra hélst hreint þessar fyrstu mínútur.

Þrátt fyrir að varnarmenn Vals næðu fljótlega áttum eftir þetta áhlaup í byrjun var vörnin undir töluverðri pressu og átti í erfiðleikum að skila knettinum fram á samherja. KR- ingar höfðu völdin á miðjunni og léku oft lipurlega sín á milli en vörn  Valsmanna  var sterk með Anton Ara á bak við sig, öryggið uppmálað. Einnig voru "dínamóarnir" tveir á miðjunni, Einar Karl og Haukur Páll óþreytandi í að trufla uppspil  KR-ingana  og í raun skilaði allt liðið mjög góðri varnarvinnu.

Á 14. mínútu snerist gæfuhjólið.  Valsmenn  komust yfir á vallarhelming KR-inga hægra megin og unnu innkast. Arnar Sveinn gaf sér góðan tíma meðan félagar hans stilltu sér upp í vítateig KR-inga og kastaði svo knettinum vel inn í teig. Haukur Páll (eða  Dion  Acoff) var fyrstur á boltann og  skallaði hann aftur fyrir sig á fjarstöngina þar sem hann féll fyrir fætur Guðjóns Péturs. Guðjóni urðu ekki á nein mistök og sendi knöttinn af öryggi í netið, óvænt forysta og geysilegur fögnuður braust út meðal stuðningsmanna Vals, 1-0!

Því fór fjarri að KR-ingar játuðu sig sigraða, héldu þeir áfram sem fyrr að þjarma að Valsmönnum og fór Óskar Örn Hauksson þar fremstur. Á 21. mínútu voru Valsmenn verulega hætt komnir þegar Óskar Örn fékk dæmda vítaspyrnu sem hann framkvæmdi sjálfur. Fast skot hans missti marks, fór í utanverða stöng og aftur fyrir, þar sluppu Valsmenn með skrekkinn.

KR-ingar  voru greinilega komnir með blóðbragð í  munninn  og færðu sig nú framar á völlinn. Það gaf eldfljótum framherjum  Valsmanna  betri tækifæri á að komast  inn fyrir  varnarlínu KR-inga enda sköpuðust fljótlega hættuleg færi. Á 30. mínútu vann  Dion  Acoff  knöttinn á vallarmiðju, stakk sér inn á autt svæði og lék hratt upp hægri vænginn, gaf frábæra sendingu fyrir fætur Kristins Inga sem kominn var óvaldaður að markteig KR-inga. Kristni brást bogalistin og mokaði knettinum yfir þverslána á tómu markinu.

Það var hlaupið fjör í leikinn og fimm mínútum síðar komst  Kennie  Chopart  frír inn í vítateig  Valsmanna  en Anton Ari sá við honum og varði með vel tímasettu úthlaupi. Liðin skiptust nú   á sóknum en varnirnar voru vel á verði og Anton Ari reyndist  KR-ingum  erfiður ljár í þúfu.

 Á 40. mínútu fékk Kristinn Ingi annað dauðafæri þegar  Valsmenn  vinna boltann á vallarmiðju eftir útspark KR-inga, stinga honum strax fram á Sigurð Egil sem leikur að vítateig vinstra megin og rennir knettinum þaðan á Kristinn Inga sem enn var kominn í upplagt færi á mark­teig en skot hans misheppnaðist og boltinn sigldi  fram hjá  markinu.

Þrátt fyrir áhættuna héldu KR ingar varnarlínunni mjög ofarlega og reyndu að pressa hvað þeir gátu á Valsvörnina. Þetta reyndist afdrifaríkt því á lokamínútu hálfleiksins nær  Dion  Acoff   að stinga  boltanum  inn fyrir vörnina í átt að Kristni Inga sem var óvaldaður en rangstæður fyrir innan varnarlínuna. Kristinn Ingi   gerði rétt í að láta boltann fara fram hjá sér og Sigurður Egill sem var réttstæður þegar  Dion  sendi tók við sendingunni, lék hratt í átt að marki og sendi knöttinn af miklu öryggi í vinstra hornið fram hjá Stefáni Loga, 2 - 0! Þar með var fyrri hálfleik lokið. Frábær skemmtun!  Valsmenn  hefðu auðveldlega getað verið komnir með fjögur mörk og  KR-ingar  allavega tvö hefðu dauðafærin nýst.

Seinni hálfleikur þróaðist með svipuðum hætti og sá fyrri  KR-ingar  héldu betur boltanum og sóttu en  Valsmenn  voru gífurlega þéttir og gáfu  KR-ingum  ekki mörg færi á sér og héldu tveggja marka forystu. Þegar langt var liðið á hálfleikinn gerði Ólafur tvær breytingar á liðinu. Danirnir Nikolaj  Køhlert  og Nikolaj  Hansen  komu inn í stað þeirra Guðjóns Péturs Lýðssonar og Kristins Inga Halldórssonar. Á 82. mínútu fengu  KR-ingar  dæmt annað víti. Í þetta sinn fór miðherji þeirra, Daninn  Tobias  Thomsen  á punktinn og  skoraði  af öryggi, 2 - 1!

Skömmu seinna varð Arnar Sveinn að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og kom Andri Fannar inn í bakvarðarstöðuna.  KR-ingar  lögðu allt kapp á lokamínútunum að jafna metin, léku með þriggja manna varnarlínu á miðjum vellinum og sex manna sóknarlínu en allt kom fyrir ekki.  Valsmenn  höfðu í fullu tré við þá, hrundu öllum árásum, héldu sínum hlut og sigldu af öryggi góðum sigri  i  höfn.

Það er ákveðið styrkleikamerki að geta knúið fram sigur gegn sterku liði eins og KR án þess að ná að sýna sitt besta andlit. Valur hefur sýnt betri leiki sóknarlega og það er gott til þess að vita að liðið á enn mikið inni hvað það varðar. Varnarvinnan   og markvarslan var fyrsta flokks og Einar Karl og Haukur Páll voru gífurlega sterkir. Dion  og Sigurður Egill eru sérlega hæfileikamiklir og hraði Dions  er öflugt vopn. Dion  sótti kannski of mikið inn á miðjuna í þessum leik, í stað þess að halda betur stöðu sinni á hægri   vængnum þar sem hraði hans nýtist mun betur. En Ólafur þjálfari veit best hvað hann syngur og hann er á góðri leið með liðið. Næsti leikur er á sunnudaginn kl. 19:15 suður í Grindavík. ÁFRAM VALUR!