Góður sigur á KA. Valur - KA 1-0

Valur - KA  1 - 0    (1 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 8. umferð. Valsvöllurinn að Hlíðarenda, sunnudaginn 18. júní 2017, kl. 17:00.

Aðstæður: Góðar, hitastig 11°c, vestan gola, 3-6 m/sek. Áhorfendur: 894

Dómari: Ívar Orri Kristjánsson. Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Oddur Helgi Guðmundsson.

 

Valsmenn höfðu góðan sigur á KA að Hlíðarenda í áttundu umferð Íslandsmótsins. Byrjun Valsmanna var gífurlega kröftug og sigurmarkið kom eftir aðeins einnar mínútu leik. KA menn hófu leikinn en strax á upphafsmínútunni unnu Valsmenn af þeim boltann. Arnar Sveinn lék hratt upp hægra megin og renndi knettinum upp kantinn  á Dion Acoff, Dion komst fram hjá bakverði KA og upp að endamörkum, gaf fastan bolta fyrir markið en KA menn náðu að bjarga í horn. Einar Karl tók góða hornspyrnu en við að reyna bægja hættunni frá varð einum varnarmanni KA, Darko Bulatovic, það á að skalla knöttinn í eigið mark, 1 - 0 fyrir Val þegar vallarklukkan sýndi 1:05!

Valsmenn fylgdu þessari góðu byrjun vel efir. Á 4. mínútu átti Guðjón Pétur hörkuskot sem fór rétt fram hjá Liðið geislaði af sjálfstrausti og stjórnaði leiknum meira og minna fyrsta hálftímann. Varnarleikurinn var öflugur og Anton Ari öruggur milli stanganna.

Eiður Aron Sigurbjörnsson, miðvörður, komst mög vel frá frumraun sína í Valstreyjunni, átti skínandi leik. Fyrir framan vörnina var Haukur Páll kóngurinn sem öllu stjórnaði. Einar Karl var einnig mjög góður og vinnusamur og voru hornspyrnur hans sérlega hættulegar.  Guðjón Pétur hélt vel boltanum og var útsjónarsamur. Það var góð vinnsla í framlínunni en eins og fyrri daginn gekk þeim illa að skapa opin færi til að skora úr.

Undir lok fyrri hálfleiksins slökuðu Valsmenn á klónni og KA menn sóttu nokkuð fast síðustu tíu mínútur hálfleiksins. Á lokamínútunum nældu þeir Bjarni Ólafur og Kristinn Ingi sér í gul spjöld og reyndist Bjarna spjaldið dýrt þegar komið var inn í seinni hálfleikinn. Seinni hálfleikur fór mun rólegar af stað en sá fyrri. Liðin sóttu á víxl án þess að veruleg hætta skapaðist.

Á 58. mínútu áttu Valsmenn hornspyrnu. Einar Karl sendi góðan bolta inn í teiginn, Bjarni Ólafur náði góðum skalla að marki og úr varð tölverð hætta en norðanmenn björguðu á marklínu. Skömmu seinna uppskar Bjarni sitt annað spjald fyrir brot rétt utan eigin vítateigs. Dómarinn lyfti rauða spjaldinu og urðu Valsmenn því að halda áfram einum færri sem eftir lifði leiks. Drengirnir létu þetta mótlæti ekki á sig fá, þjöppuðu sér saman og áttu í fullu tré við norðanmenn - og jafnvel rúmlega það!

Ólafur gerði í kjölfarið taktíska breytingu, tók af velli framherjan knáa, Dion Acoff en bætti í staðinn Rasmusi Christiansen við vörnina. Þrátt fyrir að vera einum fleiri komust KA menn hvorki lönd né strönd og ef eitthvað var - þá voru Valsmenn ívið betri en norðanmenn, þó einum færri væru. Á 72. mínútu skipti Ólafur Guðjóni Pétri út fyrir Nicolas Bogild. Undir lok leiksins varð Arnar Sveinn, sem unnið hafði mjög vel, að hverfa af velli sökum meiðsla og kom Andri Fannar Stefánsson í hans stað.

Valsmenn stýrðu sigrinum heim af öryggi og áttu í raun sjálfir síðasta orðið í leiknum en Sigurði Agli og Kristni  Inga tókst hvorugum að nýta ágæt færi eftir að komast á auðan sjó í átt að marki KA manna. Sigur Valsmanna var fyllilega verðskuldaður, þeir stjórnuðu lengst af leiknum og gáfu andstæðingunum fá færi.

Mig langar hér í lokin að vitna í félaga okkar Hörð Hilmarsson, þann gamalreynda Valsmann og landsliðmann en hann kom með spakleg ummæli í færslu sinni á Fjósinu fyrir þennan leik: "Mörk vinna leiki, en góður varnarleikur vinnur mót!" Valsmenn hafa fengið á sig fæst mörk allra liða í deildinni, haldist það og jafnframt að skot framherja okkar rati oftar í netmöskvana þá verðum við með í titilbaráttunni. ÁFRAM VALUR!