Öruggur Valssigur Valur - ÍA 6-0 (2-0)

Valur - ÍA  6 - 0    (2 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 13. umferð. Valsvöllurinn að Hlíðarenda, mánudaginn 31. júlí 2017, kl. 20:00.

Aðstæður: Valsveður, sól og blíða,  hitastig 13°c, suð-vestan andvari, 1 m/sek. Áhorfendur: 984

Dómari: Erlendur Eiríksson. Aðstoðardómarar: Bryngeir Valdimarsson og Andri Vigfússon

 

Valsmenn unnu öruggan heimasigur á Akurnesingum að Hlíðarenda í 13. umferð. Lokatölur leiksins urðu 6 - 0! Þar sem Stjarnan og Grindavík, þau lið sem næst stóu Val á mótstöflunni, töpuðu bæði stigum í umferðinni eru Valsmenn í augnablikinu komnir með átta stiga forskot á næsta lið. Einni viðureign í umferðinni er ólokið, FH og KA eigast við nk. laugardag og geta FH-ingar, með sigri, komist í annað sætið og minnkað forskot Vals í sjö stig.

Í næstu tveimur umferðum, 8. og 14. ágúst, á Valur leiki gegn FH og KR sem eru sennilega tveir skæðustu andstæðingarnir. Sex stig eru þar í húfi og þar má alls ekki fara illa, því þá gæti þetta átta stiga forskot sem nú sést á töflunni skroppið á augabragði saman í eitt stig. Því er gífurlega mikilvægt að liðið láti ekki þennan stóra sigur stíga sér til höfuðs heldur haldi einbeitingunni  sem fyrr - einn leik í einu, því hver leikur er í raun úrslitaleikur nú þegar fer að síga á seinni hlutann.

Það var sól og blíða, sannkallað Valsveður, en það er þekkt að þegar Valsmenn hafa haft góðu liði á að skipa við slíkar aðstæður hafa stórir sigrar unnist. Mér er í fersku minni  að í tvígang var talað í fjölmiðlum um framlag Valmanna til Listahátíðar þegar stórsigrar unnust á Íslandsmóti í hinu alkunna Valsveðri, fyrst á Hallarflötinni í Laugardal 1976 þegar Valur lagði ÍA 6 - 1 og svo aftur fjórum árum seinna, þegar Valsmenn gjörsigruðu Vestmanneyinga á Laugardalsvelli 7 - 2.

Því var það, í ljósi þessa, að ég spáði því fyrir þennan leik,í heyrenda hljóði, að í slíku Valsveðri eins og lék um Hlíðarenda þetta kvöld myndi liðið springa út og sigra Skagamenn annað hvort 6 - 0 eða 7 - 1! Félagar mínir, góðir og gegnir Valsmenn, tóku þessari spá minni heldur fálega og bentu réttilega á að þrátt fyrir góða stöðu í mótinu hefði markaskorun verið nokkuð ábótavant.

Ekki var heldur neitt sérlega gott útlit framan af fyrir því að spá mín myndi rætast. Þrátt fyrir að Valsmenn næðu snemma yfirhöndinni í fyrri hálfleik voru Skagamenn þéttir fyrir í vörninni og gáfu Valsmönnum fá færi á sér. Það var í raun ekki fyrr en á tveimur lokamínútum hálfleiksins að Valsmönnum tókst að brjóta ísinn. Patrick Pedersen skoraði með skalla á 44. mínútu eftir sendingu frá vinstri og á lokamínútunni komust Valsmenn aftur upp vinstra meginn Bjarni Ólafur gaf góðan bolta inn í teiginn og Guðjón Pétur kom aðvífandi og setti hann í netið, 2 - 0 í hálfleik!

Í seinni hálfleik var sama uppi á teningnum Valsmenn náðu í upphafi yfirhöndinni og yfrspiluðu Akranesliðið. Á 63. mínútu skorar miðvörðurinn Eiður Aron með skalla eftir hornspyrnu frá Guðjóni Pétri, 3 - 0! Í þessari stöðu urðu kaflaskil í leiknum. Það var sem leikur Valsliðsins leystist úr læðingi. Spilið varð markvissara en fyrr. Boltinn gekk hraðar frá miðjunni út á kantana,framherjarnir voru hreyfanlegri og hver sóknin rak nú aðra og losarabragur kom yfir Skagavörnina.

Þegar u.þ.b. 20 mínútur lifðu af leik skipti Ólafur þeim Dion Acoff og Kristni Inga inn á fyrir Andra Adolphs og Nicolas Bogild. Þeir eru hver öðrum fljótari og sköpuðu usla í vörn Skagamanna. Eftir hornspyrnu á 75. mínútu barst boltinn út til Orra Sigurðar eftir hornspyrnu. Orri, sem stóð vel utan vítateigs hægra megin, þrumaði knettinum af ca. 25 metra færi neðst í bláhornið hægra megin, sérlega glæsilegt mark.

Ekki var fimmta markið síðra, Guðjón Pétur var með knöttinn, sá vel tímasett hlaup Sigurðar Egils inn  í teigin, sendi knöttinn yfir vörnina, hárnákvæmt, Sigurður tók hann á brjóstið, lagði fyrir sig og skoraði af öryggi, 5 - 0! Ég var orðinn nokkuð viss um að spá mín myndi rætast.

Skömmu eftir markið hvíldi Ólafur Einar Karl og setti Andra Fannar inná. Hann fékk dauðafæri þegar Kristinn Ingi slapp í gegn á hægri kanti. Kristinn lék upp að endamörkum og gaf fyrir á þrjá fría Valsmenn sem stóðu einir gegn Ingvari markverði, Andri tók skotið en brást bogalistin og skaut beint á markvörðinn.

Spá mín rættist á lokamínútum leiksins þegar Dion Acoff fékk góða sendingu frá Hauki Páli, fann Kristinn Inga í fæturna og að þessu sinni urðu Kristni Inga ekki á nein mistök, hann renndi knettinum á milli fóta Ingvars Kale sem kom út á móti, fyrsta mark Kristins Inga á Íslandsmótinu og  6 - 0 stórsigur í höfn.

Ólafur Jóhannsson á hrós skilið fyrir innsæi sitt og taktíska hugkvæmni í knattspyrnuleiknum. Hann hefur að undanförnu stillt upp ellefu manna liðinu á nýjan hátt. Uppstillingin minnir mig að mörgu leyti á gamla enska kerfið sem tíðkaðist á mínum ungdómsárum, þó Ólafur gefi því nútímalegri blæ. Þrír í vörn, tveir bakverðir (Bjarni Ólafur og Orri Sigurður) og miðvörður (Eiður Aron). Tveir framverðir (Haukur Páll og Einar Karl), tveir framherjar (Guðjón Pétur og Nicolas Bogild) og miðframherji (Patrick Pedersen) auk tveggja útherja (Andri Adolphs og Sigurður Egill) að ógleymdum Antoni Ara í markinu.

Allir þessir leikmenn hafa yfir ágætri tækni að ráða, eru með góða sendigetu og oft á tíðum vel spilandi. Framverðirnir eða "haffbakkarnir" (half backs) skila geysi góðri varnarvinnu og framherjarnir liggja aftar en þeir gerðu í gamla daga, reiðubúnir að verjast, tapist boltinn,  jafnt sem sækja fram, vinnist boltinn og byggja upp sóknir. Patrirck er hreyfanlegur miðherji með gott auga fyrir hættulegum staðsetningum og gefur sóknarleiknum meira bit en áður. Innkoma Andra á hægri kantinn hefur einnig gert liðinu gott, hann er leikinn og áræðinn með ágætt auga fyrir spilinu.

Það sem leikmenn þurfa að lagfæra til að sóknarleikurinn verði enn beittari er að láta boltann vinna betur. Klappa honum ekki of mikið heldur senda hann hratt og nákvæmt á samherja og huga vel að hreyfanleika, hlaupa sig fría og vera tilbúnir að taka við sendingum. Dreifa spilinu vel út á kantana og komast aftur fyrir varnarlínu andstæðingana. Öllu þessu sá maður bregða fyrir í kvöld og maður vill meira af svo góðu. Þetta er allt á góðri leið. ÁFRAM VALUR!