Valur Íslandsmeistari 2017 eftir öruggan sigur á Fjölni 4 - 1 (2 - 0)

Valur - Fjölnir  4 - 1    (2 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 20. umferð. Valsvöllurinn að Hlíðarenda, sunnudaginn 17. september 2017, kl. 19:15

Aðstæður: Þokkalegar, hitastig 12°c, suðaustan kaldi 8 m/sek., rigningarskúrir á köflum. Áhorfendur: 1123

Dómari: Ívar Orri Kristjánsson. Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Egill Guðvarður Guðlaugsson

 

Það var rafmögnuð stemning meðal áhangenda Vals í stúkunni á Hlíðarenda í upphafi viðureignarinnar gegn Fjölni í kvöld. Valsmenn voru í dauðafæri að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í 10 ár. Sigur í þessum eina leik myndi binda enda á vonir helstu keppinautanna, Stjörnunnar og FH, um að geta náð Valsmönnum. Sjö stiga forysta þeirra myndi nægja til sigurs fyrir tvær síðustu umferðirnar.

Og áhangendurnir Vals fengu óskabyrjun. Það voru vart liðnar fjórar mínútur af leiknum þegar Guðjón Pétur Lýðsson kom Val yfir með fallegu bogaskoti í fjærhornið af u.þ.b. 20 metra færi eftir stutta sendingu frá Sigurði Agli Lárussyni. 1 - 0! Glæsileg byrjun sem gaf Val byr undir báða vængi.

Ólafur sýndi réttmæta varfærni í undirbúningi þessa leiks leik og hvarf aftur til fjögurra manna varnar með þá Arnar Svein og Bjarna Ólaf í bakvarðastöðum og Orra Sigurð og Einar Aron sem miðverði. Þriggja manna miðju skipuðu að vanda þeir Haukur Páll, fyrirliði, Einar Karl og Guðjón Pétur og í fremstu línu voru Sigurður Egill, Kristján Ingi og Dion Acoff.

Valsmenn tóku öll völd á vellinum eftir markið. Þétt vörnin með Anton Ara að baki í markinu lokuðu öllum leiðum Fjölnismanna. Þrátt fyrir yfirburði úti á vellinum tókst þeim ekki að nýta þá til markaskorunar og undir lok hálfleiksins komst svolítið los á leik Valsliðsins, þeir gáfu Fjölnismönnum meira svæði og völduðu sóknarmenn Fjölnis verr en áður.

Ekki mátti miklu muna að illa færi á 42. mínútu þegar ágætt færi Fjölnismanna rann út í sandinn og aftur á  44. mínútu þegar Fjölnismenn fengu gott færi en markskot þeirra fór himinhátt yfir. Það var svo í uppbótatíma fyrri hálfleiks að Valsmenn náðu aftur að sækja og uppskáru hornspyrnu frá hægri á síðustu mínútunni.

Einar Karl framkvæmdi spyrnuna, föst sending hans rataði á kollinn á Hauki Páli og bylmings skalli hans hrökk af þverslánni og út í teiginn, þar var Bjarni Ólafur réttur maður á réttum stað og skallaði knöttinn fallega í háum boga yfir vörnina og undir þverslána, 2 - 0!

Markið kom á góðum tíma og var Valsmönnum mikill léttir. Því þrátt fyrir yfirburði þeirra í fyrri hálfleik þá sýndi það sig undir lok hálfleiksins að eins marks forysta getur verið afar viðkvæm og ekki má miklu muna að hún fjúki veg allrar veraldar, því var annað markið á þessum tíma gulls ígildi.

Óskabyrjun Valsmanna í seinni hálfleik gerði í raun út um þennan leik. Líkt og í fyrri hálfleik voru vart fjórar mínútur liðnar frá upphafsflauti dómarans þegar knötturinn lá netinu. Á 49. mínútu tók Guðjón Pétur hornspyrnu frá hægri. Knötturinn barst út til Sigurðar Egils sem stóð rétt utan vítateigslínu. Sigurður sendi knöttinn með föstu utanfótarskoti í bláhornið og Valsmenn voru komnir í 3 - 0!

Það má segja, eins og stundum er komist að orði, að þar með hafi dagskránni verið formlega lokið. Valsmenn höfðu nú öll völd á vellinum og Fjölnismenn náðu sér engan veginn á strik eftir þetta þriðja mark. Stemningin í stúkunni magnaðist. Stuðnigsmenn Vals sungu og klöppuðu, fullvissir um að nú væri Íslandsmeistaratitilinn í öruggri höfn.

Ólafur gerði breytingar á liðinu. Á 71. mínútu tók hann Dion Acoff af velli og setti Andra Fannar inn á miðjuna og á 77. mínútu hvarf Arnar Sveinn af velli og inn kom Andri Adophsson og tók stöðu á hægri kanti. Síðasta skiptingin var gerð á 80. mínútu þá fór fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson af velli og inn kom Daninn Rasmus Christiansen.

Aðeins tveimur mínútum síðar kom fjórða markið. Andri sem hafði komið sérlega ferskur inn í leikinn lék laglega í gegn upp að endamörkum Adolphsson hægra megin, gaf góða sendingu inn í teiginn þar sem Einar Karl fylgdi vel og afgreiddi knöttinn ag öryggi í markið, 4 - 0!   

Líkt og í fyrri hálfleik þá kviknaði aðeins á Fylkismönnum undir lok hálfleiksins. Á 84. mínútu komst varamaðurinn Marcus Solberg í dauðafæri en Anton Ari varði skot hans meistaralega í horn. En aðeins mínútu fengu seinna skoruðu Fjölnismenn. Eftir hornspyrnu og mikið japl, jaml og fuður í vítateig Valsmanna þar sem ekki náðist að hreinsa almennilega frá, hrökk boltinn fyrir fætur Marcusar Solberg sem skoraði af stuttu færi.

Þetta sárabótarmark breytti engu um það sem komið var. Niðurstaðan var 4 - 1 sigur Valsmanna og verðskuldaður Íslandsmeistaratitill kominn í hús þrátt fyrir að enn sé tveimur umferðum ólokið. TIL HAMINGJU VALSMENN