Ungur íslenskur bakvörður kominn í Val frá Norður Karólínu

"Valsmenn hafa styrkt sig í Domino´s deild karla í körfubolta en Gunnar Ingi Harðarson mun spila sinn fyrsta leik með liðinu í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld.

Gunnar Ingi Harðarson er 21 árs bakvörður sem er uppalinn Ármenningur en spilaði einnig með KR og FSu áður en hann fór út í nám til Bandaríkjanna. 

Gunnar Ingi spilaði með FSu liðinu í Domino´s deild karla tímabilið 2015-16 og var þá með 9,1 stig og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í leik. 

Nú síðast spilaði hann með Belmont Abbey háskólaliðinu í í Norður Karolínu þar sem Gunnar Ingi skoraði 7,6 stig að meðaltali í leik og var með 39 prósent þriggja stiga nýtingu.

Gunnar Ingi er búinn að skrifa undir samning við Valsmenn og er orðinn löglegur. Valsmenn fá þarna ungan og upprennandi leikmann sem hefur bæði reynslu úr Domino´s deildinni og úr bandaríska háskólakörfuboltanum.

Gunnar Ingi skoraði mest 17 stig í Domino´s deildinni tímabilið 2015 til 2016 en besti leikurinn hans var þó á móti KR þar sem hann var með 14 stig og 12 stoðsendingar. 

Valsmenn eru nýliðar í Domino´s deild karla en liðið hefur unnið einn af fjórum fyrstu leikjum sínum."Athugasemdir