Birkir Már Sævarsson semur við Val til þriggja ára

Í dag gekk Birkir Már Sævarsson frá samningi við Knattspyrnufélagið Val til næstu þriggja ára. Vart þarf að fjölyrða hversu stór tíðindi þetta eru bæði fyrir Val og Íslenska knattspyrnu að fá þennan uppalda Valsmann, EM og HM dreng heim.

Birkir Már varð Íslandsmeistari með Val árið 2007 og fór síðan í atvinnumennsku árið þar á eftir. Birkir hefur verið fastamaður í landsliði Íslands og leikið 76 A-landsleiki. Hann tók þátt í lokakeppni EM og allar líkur á að hann verði hluti af landsliðinu sem tekur þátt á HM næsta sumar.

Birkir lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki Vals árið 2002. Með Val lék hann 79 leiki í deild og bikar. Birkir lék með Brann í Noregi árin 2008-2014 en fór þaðan til Hammarby í Svíþjóð.

Birkir stendur við stóru orðin en í viðtali sem tekið var við hann á fotbolti.net árið 2015 þar sem hann er spurður um hvar hann ætli að enda ferilinn þá segir hann "Draumurinn er að enda þetta í Val og það er stefnan".