Saman gerum við gott félag enn betra

Í febrúar var viðhorfskönnun lögð fyrir foreldra og forráðamenn barna og ungmenna í 3.-8. flokki í knattspyrnu hjá Val. Kallað var eftir ábendingum frá foreldrum um annars vegar hvað vel væri gert og hins vegar hvað betur mætti fara í starfsemi félagsins.

Niðurstöður birta mjög jákvætt viðhorf foreldra til þjálfara, gæða æfinga, skipulags og samskipta en alls nefndu 89% svarenda einn eða fleiri fyrrgreindra þátta.

Þjálfarar í knattspyrnu líta á niðurstöðurnar sem enn frekari hvatningu um að gera betur í starfi knattspyrnudeildar og þakka innilega fyrir góða endurgjöf.

 

Athugasemdir um það sem betur mætti fara hafa verið rýndar sérstaklega. Mest áberandi voru athugasemdir frá foreldrum yngstu barna varðandi umgjörð í Valsheimilinu fyrir og eftir æfingar. Úr þessu hefur verið bætt með því að ráða inn starfskraft á svokallaða Stubbavakt sem sér um að halda uppi góðum brag í húsinu í upphafi og við lok æfinga. Hlutverk hans er að halda uppi góðum brag í búningsklefum og á göngum Hlíðarenda, aðstoða börn ef hlutir týnast, ef barn meiðir sig og þar fram eftir götunum. Þessi starfskraftur er ómetanlegur stuðningur við þjálfara og aðstoðarþjálfara sem hafa í nógu að snúast með að halda utan um stóra hópa barna á þessum tíma.

Starfskrafturinn er góð viðbót við starfsmann sem situr í frístundarútunni og gætir að öryggi barnanna en sá hefur verið til staðar síðan haustið 2017.

 

Deildarráð yngri flokka í knattspyrnu hyggst þróa og leggja viðhorfskönnunina fyrir árlega og nýta niðurstöðurnar til að bæta starfið hjá Val.

Saman gerum við gott félag enn betra.

 

Með bestu sumarkveðju frá stjórn deildarráðs yngri flokka í knattspyrnu hjá Val.Athugasemdir