Glæsilegur sigur Valskvenna í fyrstu umferð

Valur - Selfoss    8 - 0    (4 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild kvenna, 1. umferð.  Origovöllurinn að Hlíðarenda, föstudaginn 4. maí 2018, kl. 19:15.

Aðstæður: Vest-suðvestan gola, 5 m/sek, skýjað örlítil úrkoma á köflum, hitastig 2°c.  Áhorfendur: 280.

Dómari: Bríet Bragadóttir. Aðstoðardómarar: Ólafur Njáll Ingólfsson og Guðni Freyr Ingvason.

 

Eins og alltaf þá er fyrsti heimaleikurinn í Pepsi-deild kvenna tilhlökkunarefni. Spá leikmanna og þjálfara í deildinni var á þá lund að Valur yrði í öðru sæti, á eftir Íslandsmeisturum Þór/ KA. Hvort spáin sú gangi eftir skal ósagt látið en ljóst er að Valskonur munu gera harða atlögu að titlinum.

Leikmannahópurinn er sterkur styrkist eflaust enn frekar í sumar þegar Dóra María hefur náð sér af meiðslum og ekki síður, þegar systurnar Margrét Lára og Elísa sem nú eru orðnar léttari, snúa til baka, vonandi lausar við öll meiðsli.

Ekki skal gleyma hinni efnilegu Eygló Þorsteinsdóttur sem eflaust kemur brátt til baka en hún kom inn í meistaraflokkinn í vetur ásamt öðrum bráðungum Valsstúlkum , þeim Hallgerði Kristjánsdóttur, Ísabellu Önnu Húbertsdóttur, Rögnu Guðrúnu Gunnarsdóttur og markverðinum knáa Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving.

Fyrir keppnistímabilið höfum við fengið frá öðrum félögum góðan liðstyrk, jafnt innanlands sem að utan. Hæst ber að nefna hina reyndu landsliðskonu Hallberu Gísladóttur sem ánægjulegt er að sjá komna í hópinn á Hlíðarenda. Einnig hefur okkur borist góður liðsauki úr KR en það eru tvær ungar, öflugar stúlkur, Ásdís Karen Halldórdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir.

Mexíkósku Kaliforníustúlkurnar, Ansia Guajardo og Ariana Calderon, eru horfnar á braut en kollegar þeirra úr mexíkóska landsliðinu, þær Arianna "Ari" Jeanette Romero frá Nebraska í Bandaríkjunum sem leikið hefur víða við góðan orðstír, síðasta sumar með Valerenge í Noregi og með ÍBV í hitteðfyrra, er komin til liðs við okkur ásamt löndu sinni Teresu Noyolu Bayardo frá San Fransisco í Kaliforníu.

Teresa Noyola, lék með U-20 liði Bandaríkjanna en tvítug að aldri valdi hún að leika með mexíkóska A-landsliðinu. Meðfram því að hafa stundað knattspyrnuna af elju í Kaliforníu lauk Teresa meistaraprófi í stærðfræði frá hinum virta Stanford háskóla í Kaliforníu!

Þriðji erlendi leikmaðurinn er bandarísk stúlka, Crystal Thomas, framherji sem hóf ferilinn hjá Notre Dame í Indiana 2012 færði sig seinna austur á bóginn og samdi við Washington Spirit í Georgetown í Washington D.C. en í fyrra sumar samdi hún við norska úrvalsdeildarliðið Medkila í Harstad og kláraði með þeim keppnistímabilið.

Fyrir keppnistímabilið urðu þjálfaraskipti. Úlfur Blandon sem þjálfað hafði liðið á síðasta kepnnistímabili lét af störfum og við tók Pétur Pétursson, einn þekktasti og sterkasti knattsspyrnumaður íslenskrar knattspyrnusögu og reynslumikill þjálfari.

Honum til aðstoðar er Andri Steinn Birgisson, sem hefur gífurlega reynslu úr knattspyrnunni, alinn upp í Fjölni, var ungur í skoðun hjá enskum atvinnumannaliðum en lenti í bílslysi í Englandi og fluttist heim. Hann hefur leikið m.a. með Fylki, Fram, Keflavík, Grindavík og Haukum en hefur á seinni árum snúið sér að þjálfun. Það er engin spurning að þetta teymi, Pétur Péturs og Andri Steinn mun halda stelpunum vel við efnið í sumar.

Þeim til halds og trausts eru þau Margét Magnúsdóttir og Rajko Stanisic, markmannsþjálfari og ekki skal heldur gleyma liðstjórunum, þeim Thelmu Guðrúnu Jónsdóttur og Ástu Árnadóttur sem gæta þess að allt sé til taks og á sínum stað.

En snúum okkur að upphafsleiknum gegn Selfossi. Pétur stillti upp fjögurra manna varnarlínu fyrir framan Söndru Sigurðardóttur markvörð. Málfríður Anna Eiríksdóttir var hægri bakvörður og vinstra megin var Hallbera Gísladóttir.

Miðverðir voru Arianne Jeanette Romero og fyrirliðinn, Málfríður Erna Sigurðardóttir. Á miðjunni voru þær Telma Björk Einarsdóttir, Teresa Noyola Bayardo og fremst, í holunni skokallaðri, Ásdís Karen Halldórsdóttir.

Framlínan var skipuð þeim Crystal Thomas sem lék á vinstri vængnum, Elín Metta Jensen lék í stöðu miðframherja og Hlín Eiríksdóttir á hægri kanti.

Selfyssingar áttu fyrstu snörpu sóknina, sóttu upp vinstri vængin en Valsvörnin náði að bægja hættunni frá. Valskonur náðu fljótt ágætum tökum á leiknum og á 5. mínútu kom fyrsta alvörufærið. Hlín fékk góða stungusendingu upp hægri kantinn, stakk af varnarmann og komst inn í teig en skot hennar var varið.

Á 8. mínútu gerðist  Elín Metta ágeng upp við mark Selfyssinga en skot hennar var varið í horn. Á næstu mínútum tóku Valskonur öll völd á vellinum. Ásdís Karen var potturinn og pannan í flestum sóknaraðgerðum, las leikinn vel, skilaði  boltanum af nákvæmni til samherja og sýndi í alla staði stórgóðan leik.

Þrátt fyrir nokkur góð færi þá sá fyrsta markið ekki dagsins ljós fyrr en á 25. mínútu. Ásdís Karen, náði slöku útsparki markvarðar Selfyssinga á vallarhelmingi þeirra. Óvölduð lék hún hratt inn í vítateiginn og sendi knöttinn með fallegu skoti í fjærhornið, 1 - 0!

Á 33. mínútu fengu Selfyssingar færi á að jafna þegar aukaspyrna var dæmd rétt utan vítateigs Vals. Gott skot Magdalenu Önnu Reimus hafnaði á þverslánni og Valskonur sluppu með skrekkinn. Aðeins tveimur mínútum seinna bættu Valskonur við öðru marki er Teresa Noyola átti afbragðs stungusendingu fram á Elínu Mettu sem afgreiddi knöttinn í netið af öryggi. 2 - 0!

Þriðja markið kom í kjölfar góðrar sendingar Teresu á Ásdísi sem var á auðum sjó við vítateigshorn og vandað, fallegt skot hennar kom Valskonum í 3 - 0 á 39. mínútu.

Valskonur hófu seinni hálfleik á svipuðum nótum og þær luku þeim fyrri, þær höfðu undirtökin í leiknum en náðu þó ekki að ógna neitt verulega. Það var ekki fyrr en eftir tuttugu mínútna leik að þær náðu að opna markareikninginn á nýjan leik en þá komu líka þrjú mörk á fjögurra mínútna kafla!

Á 65. mínútu, upp úr hornspyrnu, gaf Teresa fasta sendingu fyrir markið, þar var Ásdís mætt og stýrði knettinum með góðri innanfótarspyrnu fram hjá markverðinum, 4 - 0! Fimmta markið kom tveimur mínútum síðar á 67. mínútu þegar Elín Metta gaf laglega sendingu inn á Crystal Thomas sem skoraði af öryggi vinstra megin úr teignum 5 - 0! Sjötta markið kom svo tveimur mínútum síðar, á 69. mínútu og var þar að verki hin eldsnögga Stefanía Ragnarsdóttir, nýkominn inn á í stað Thelmu Bjarkar sem hafði átt afbragðsleik djúpt á miðjunni.

Skömmu seinna fór Crystal Thomas af velli og kom Guðrún Karítas í hennar stað. Á 77. mínútu yfirgaf Ásdís Karen völlinn og var klappað lof í lófa af stuðningsmönnum Vals, í hennar stað kom Pála Marie Einarsdóttir.

Undir lok leiksins bættu Valskonur tveimur mörkum við. Stefanía skoraði sitt annað mark af harðfylgi á 84. mínútu, 7 - 0 og á 87. mínútu skoraði varamðurinn Guðrún Karítas síðasta mark leiksins með góðu skoti eftir sendingu frá hægri, 8 - 0!

Það verður að segjast Selfosskonum til hróss að þær gáfust aldrei upp, börðust allan tímann eftir bestu getu en áttu að þessu sinni við ofurefli að etja. Valsliðið átti góðan dag. Sandra og vörnin áttu frekar rólegan dag en leystu af öryggi þann vanda sem bar að hverju sinni. Thelma Björk var mjög öflug í stöðu sinni sem djúpur miðjumaður og Teresa Noyola átti einnig skínandi leik og lagði upp nokkur mörk.

Fremst á miðjunni var Ásdís Karen og hún stórgóðan leik, var valin maður leiksins og var vel að því komin, skoraði þrennu og var lengst af potturinn og pannan í sóknarleik liðsins, góður leikskilningur og nákvæmni í sendingum einkenndu leik hennar. Hún á eflaust eftir að láta að sér kveða á næstu árum en hún er aðeins átján ára gömul.

Framlínumennirnir voru frískir, þær Hlín og Crystal á köntunum og Metta miðframherji. En þær skoruðu aðeins tvö mörk af þessum átta og munu eflaust naga sig í handarbökin yfir dauðafærum sem ekki nýttust. En gæði þessara leikmanna eru dagsljós og mörkin munu örugglega koma. Til hamingju með glæsilegan sigur. Áfram Valur!