Valur gerir 3 ára samning við sprotafyrirtækið Sportabler

Knattspyrnufélagið Valur og Sportabler hafa gert með sér samstarfssamning um innleiðingu Sportabler kerfisins inn í alla flokka í öllum deildum félagsins. Sportabler er íslenskt vef- og snjallsímaforrit sem gerir skipulagningu og samskipti í íþróttastarfi margfalt skilvirkari og einfaldari.

Kerfið er ætlað þjálfurum, iðkendum, foreldrum, og starfsmönnum íþróttafélaga. Valur hefur undanfarna mánuði unnið í samstarfi við Sportabler að þróun forritsins og hefur notkun þess gefist afar vel. Sportabler er hugsað sem viðbót við íþróttastarfið. Markmið Sportabler er að styðja við og efla skipulagt íþróttastarf með tvennum hætti. Annarsvegar með því að auka skilvirkni í skipulags- og samskiptamálum, og hinsvegar með því að bjóða kennsluefni í þjálfun jákvæðra persónuleikaþátta í gegnum íþróttir, þar sem æfingar t.d. í sjálfstrausti eru fléttaðar með markvissum hætti inn í íþróttastarfið.

Sportabler starfar með leiðandi íþróttafélögum og stofnunum á Íslandi. Fyrstu íþróttafélögin til að taka Sportabler Organiser í notkun voru Valur og Breiðablik. Á síðustu misserum hafa fleiri félög fylgt í kjölfarið. Sportabler hefur hlotið styrk úr Tækniþróunarsjóði Íslands, úr Lýðheilsusjóði og frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Lárus Bl. Sigurðsson Framkvæmdastjóri Vals

"Þessi samningur við Sportabler fellur vel við þau markmið sem Valur hefur sett sér, að bjóða iðkendum og forráðamönnum bestu mögulegu þjálfun, aðstöðu og lausnir sem völ er á. Það er frábært að geta boðið okkar fólki upp á þessa spennandi nýjung, sem auðveldar samskipti og bætir starfsumhverfið. Þetta mun efla íþróttastarf Vals enn frekar. Ég á von á mjög farsælu samstarfi við Sportabler" Segir Lárus Blöndal Sigurðsson framkvæmdastjóri Vals.

 

Andri Fannar Stefánsson yfirþjálfari yngri flokka karla í knattspyrnu

"Sportabler einfaldar allt utanumhald íþróttastarfsins og sparar okkur þjálfurunum mikinn tíma. Foreldrar eru betur upplýstir um dagskrá barnanna sinna og öllum þessum dæmigerðu skilaboðum og tilkynningum um tímasetningar, staðsetningar og mætingu hefur

fækkað til muna. Við sjáum marga möguleika með Sportabler og munum taka þátt í þróun kerfisins á næstu árum."

 

Markús Máni M. Maute framkvæmdastjóri og stofnandi Sportabler

"Valur hefur staðið við bakið á okkur frá upphafi og var fyrsta félagið til að taka Sportabler í notkun. Við erum afskapaplega þakklát fyrir samstarfið við Val og að fá áframhaldandi tækifæri til að vinna náið með öllu því góða fólki sem stendur að íþróttastarfinu hjá félaginu. Í sameiningu munum við vinna hörðum höndum að því að gera gott íþróttastarf enn betra. Þetta er auðvitað sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að Valur er mitt félag, hér ólst ég upp og við erum bara rétt að byrja"

Smelltu hér til að skoða fréttatilkynninguna í heild sinni ásamt myndumAthugasemdir