Formleg opnun Fjóssins – Knattspyrnufélagið Valur

Föstudaginn 25. maí kl. 17.00 verður Fjósið formlega opnað  en þá verða liðin 150 ár frá fæðingu séra Friðriks. Af því tilefni býður Valur félagsmönnum og öðrum áhugasömum í kaffi. Eldri Valsarar eru sérstaklega hvattir til að koma og skoða hvernig til hefur tekist með endurreisnina. 

Knattspyrnufélagið Valur samdi um kaup á jörðinni Hlíðarenda þann 10. maí 1939 og lauk þar með þrautagöngu sem m.a. hafði boðið upp á lagningu einu íslensku járnbrautarinnar í gegnum völl félagsins meðan hann var á melunum vestan lækjar.

Þrjár byggingar tilheyrðu Hlíðarenda og hægt og bítandi hófst notkun húsakostsins en mest var um vert að fá til afnota fjósið sem notað var sem búningsklefi og hlöðuna sem fékk hlutverk félagsheimilis og skrifstofu félagsins.

Árið 1948 vígði Séra Friðrik Friðriksson fjósið formlega sem félagsheimili. Næstu fjörutíu árin þjónaði þessi húsakostur félaginu og fjölmargir hópar íþróttafólks utan af landi nutu gestrisni Valsmanna þegar þeir fengu inni til gistingar. Undir það síðasta var viðhaldi húsana mjög ábótavant og notkunin var nánast engin.

Í árslok 2016 var skipuð nefnd til að halda utan um endurreisn fjóssins og hefur hún starfað allan tímann. Nefndin fékk Björn G. Björnsson leikmyndahönnuð í lið með sér, í tengslum við uppsetningu sögusýningar, sem búið er að setja upp í Fjósinu.

Við hlökkum til að sjá sem flesta þann 25. maí kl. 17:00.