Harðsóttur heimasigur, Valur - Breiðablik 2-1 (0 - 1)

Valur - Breiðablik   2 - 1   (0 - 1)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 3. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 27. maí 2018, kl. 20:00

Aðstæður: Alskýjað, lítilsháttar rigning, hæg suð-vestan gola, 3-4 m/sek, hiti 7°c.  Áhorfendur: 1428

Dómari: Þóroddur Hjaltalín. Aðstoðardómarar: Frosti Viðar Gunnarsson og Eðvarð Eðvarðsson

 

Það var mikið í húfi fyrir Íslandsmeistara Vals þegar þeir tóku á móti Breiðabliki á Hlíðarenda í 6. umferð Pepsi-deildarinnar. Fyrir leikinn voru Valsmenn í 8. sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Breiðabliki sem sátu í efsta sæti. Ekkert annað en sigur kom til greina. Enn eitt jafnteflið hefði ekki bætt stöðu liðsins og ósigur hefði breikkað bilið og gert Valsmönnum titilvörnina all erfiða.

Ólafur stillti upp 4 - 3 - 3, líkt og gegn Grindvíkingum fyrr í vikunni. Þá breytingu gerði hann þó á þriggja mannna miðjunni að Sindri Björnsson, sem komið hafði inn á sem varamaður í leiknum gegn Grindavík og staðið sig með miklum sóma, hélt stöðu sinni og var nú í byrjunarliðinu í stað Einars Karls.

Valsmenn byrjuðu leikinn fríkslega, fengu aukaspyrnu og hornspyrnu strax á upphafsmínútunum og voru mun líklegri til að byrja með. En Blikarnir létu lítinn bilbug á sér finna, svöruðu fljótlega með snarpri sókn og uppskáru hornspyrnu strax á fimmtu mínútu.

Á næstu mínútum færðist mikið fjör í leikinn og sóttu liðin á víxl. Á níundu mínútu átti Aron Bjarnason lúmskt skot utan vítateigs en Anton Ari sá við honum og varði vel. En aðeins fimm mínútum seinna náði Aron forystunni fyrir Blika. Eftir hraða sókn barst knötturinn til Arons þar sem hann stóð hægra megin í teignum, hann sneri af sér varnarmann og sendi knöttinn með góðu skoti í vinstra markhornið, 0 - 1.

Valsmenn reyndu strax að jafna metin en tilraunir þeirra fóru út um þúfur. Blikar náðu smám saman betri tökum á leiknum og um miðjan hálfleikinn leit út fyrir að Blikar væru nær því að auka forskot sitt en Valsmenn að jafna. Það var ekki fyrr en á 33. mínútu sem Valsmenn létu að sér kveða á nýjan leik. Þá náðu Valsmenn góðri sókn, Sigurður Egill gaf á Guðjón Pétur sem var óvaldaður utan vítateigs, hann skaut föstu skoti á markið, Gunnleifur hélt ekki knettinum og Patrik Pedersen fylgdi fast eftir og sendi knöttinn í netið - en var dæmdur rangstæður.

Þetta kveikti í Valsmönnum og náðu þeir nokkrum snörpum sóknum næstu mínútur en höfðu ekki árangur sem erfiði. Sóknir Blikanna í fyrri hálfleik voru hættulegar og á 43. mínútu áttu þeir þá fallegustu; boltinn gekk hratt manna á milli með einnar snertingar sendingum og lauk Óliver Sigurjónsson sókninni með hörkuskoti, naumlega framhjá Valsmarkinu.

Það sem eftir lifði hálfleiksins skiptust liðin á hörðum sóknum en ekkert var skorað. Á lokamínútunni sendi Sigurður Egill góða sendingu í teiginn sem Haukur Páll skallaði í netið - en aftur var dæmd rangstaða og var staðan því 1 - 0 þegar Þóroddur dómari flautaði til leikhlés.

Valsmenn byrjuðu af krafti í seinni hálfleik og náðu góðum tökum á leiknum, Þeir vörðust ágætlega öllum sóknum Blikana og voru meira með boltann en gekk afleitlega að reka endahnútinn í sóknarleiknum. Oftast var það "síðasta sendingin" sem fór forgörðum. Annaðhvort var um að ræða ónákvæmar sendingar inn í teig andstæðinganna, sendingar sem ekki virtust skráðar á neinn viðtakanda eða þá að viðtakandi var orðinn rangstæður þegar sendingin lagði af stað til hans.

En eftir rösklega stundarfjórðungs leik, á 62. mínútu, snerist stríðsgæfan Valsmönnum í vil. Boltinn barst þá út á hægri kantinn til Kristins Inga sem náði að gefa góða sendingu inn í vítateig Blikanna, þar var Patrick Pedersen óvaldaður og afgreiddi knöttinn með viðstöðulausu skoti í hægra hornið, sérlega glæsilegt, 1 - 1!

Liðin höfðu nú u.þ.b. hálfa klukkustund til að gera út um leikinn og sóttu nú á víxl. Valsmenn gerðu breytingar á liði sínu þegar Patrick fór af velli á 75. mínútu. Í hans stað í fremstu víglínu kom annar Dani, Thomas Thomsen. Aðra breytingu gerðu þeir á 79. mínútu þegar Guðjón Pétur fór af velli. Sindri færði sig framar, í stöðu Guðjóns en inn á kom Einar Karl, varnartengiliður og tók stöðu Sindra við hlið Hauks Páls.

Það var svo undir lok leiksins, á 86.mínútu, að Ólafur þjálfari ákvað að láta Ólaf Karl Finsen spreyta sig síðustu mínúturnar. Það reyndist happadrjúg ákvörðun. Aðeins tveimur mínútum síðar tekur Birkir Már landsliðsbakvörður til sinna ráða, geysist með knöttinn upp allan völlinn hægra megin, að vítateigshorni Blikana og meðfram víteigslínu, sér Sigurð Egil óvaldaðan á vinstri vængnum og gaf nákvæma sendingu á hann. Sigurður Egill lék up vinstra megin, sendi fastan jarðarbolta fyrir markið þar sem Ólafur Karl var réttur maður á réttum stað og skoraði af öryggi, 2 - 1!

Það sem eftir lifði leiks reyndu Blikar hvað þeir gátu til að jafna metin en Valsmenn voru vandanum vaxnir og afstýrðu öllum tilraunum Blika og áttu að auki sjálfir sín færi. Þeir lönduðu harðsóttum heimasigri gegn góðu liði Breiðabliks og hafa nú blandað sér í toppbaráttuna.

Breiddin í Valsiðinu er góð. Gaman verður að sjá meira til Ólafs Karls, leikur hans lofaði góðu í deildarbikarnum og nú er bara að vona að hann komist fljótt í toppform. Von er á að Andri Adolphsson, sá snjalli útherji, komi aftur í hópinn. Fjölgar það möguleikum í sóknarleiknum og eykur vissulega enn breiddina.

Varnarleikur liðsins er öruggari í 4 - 3 - 3 kerfinu en hann var í þriggja manna vörninni jafnframt sem flæðið fram á við er betra. Allt annað var að sjá til Antons Ara í þessum leik en þeim síðasta. Hann var öryggið uppmálað og varði vel. Sindri galt Óla traustið, átti góðan leik á miðjunni, vinnusamur og útsjónarsamur. Eiður Aron hefur farið einsaklega vel af stað í þessu móti. Í hjarta varnarinnar hefur hann verið eins og kóngur í ríki sínu og unnið flestöll einvígi.

Það var nauðsynlegt að ná sigri í þessum leik til að styrkja mögulega titilvörn. Næst er það bikarkeppnin, heimaleikur á Hlíðarenda gegn bikarmeisturum ÍBV, miðvikudaginn 30. maí og síðan strax um næstu helgi, sunnudaginn 3. júní, erfiður útileikur í Íslandsmótinu gegn Fjölni í Grafarvogi. Þessi sigur var lærdómsríkur og verður eflaust gott veganesti í baráttuna sem framundan er. ÁFRAM VALUR!