Öruggur sigur á Víkingum 4 - 1 (2 - 0)

Valur - Víkingur   4 - 1   (2 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 13. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 22. júlí 2018, kl. 16:00

Aðstæður: Ágætar, hitastig 9°c, hæg norð-vestanátt, 2 m/sek, súld og þokumóða. Áhorfendur: 823

Dómari: Helgi Mikael Jónasson. Aðstoðardómarar: Oddur Helgi Guðmundsson og Bjarki Óskarsson

 

Valsmenn sigruðu Víkinga nokkuð örugglega á heimavelli sínum að Hlíðarenda í 13. umferð Íslandsmótsins. Með sigrinum endurheimtu þeir efsta sæti deildarinnar því á sama tíma laut Stjarnan í lægra haldi fyrir KR-ingum en Stjarnan hafði náð að tylla sér í efsta sætið, á markamun, eftir 12. umferðina.

Töluverðar breytingar voru á liði Vals frá viðureigninni við KR í 12. umferðinni. Nýr liðsmaður, Svíinn Sebastian Starke Hedlund, lék í stöðu miðvarðar í stað Eiðs Arons Sigurbjörnssonar sem tók út leikbann. Sebastian lék allan leikinn og það var auðséð strax frá byrjun að þar fór hæfileikaríkur leikmaður. Það veður spennandi að sjá þá Eið Aron saman í hjarta varnarinnar.

Að öðru leyti var vörnin óbreytt, Birkir Már í stöðu hægri bakvarðar, Bjarni Eiríkur í miðvörninni og Ívar Örn vinstri bakvörður og að baki þessum traustu varnarmönnum stóð Anton Ari í markinu, öruggur að vanda. Fyrir framan vörnina var kletturinn Haukur Páll sem ófáar sóknartilraunir Víkinga brotnuðu á.

Fleiri breytingar voru gerðar fram á við. Guðjón Pétur kom að nýju inn í byrjunarliðið fyrir Einar Karl og lék við hlið Kristins Freys á miðjunni. Dion Acoff hóf leikinn í stöðu hægri útherja en Andri Adolphsson lék á vinstri kantinum í stað Sigurðar Egils. Fremstur í flokki fór miðherjinn lipri, Patrick Pedersen.

Valsmenn náðu yfirhöndinni snemma í leiknum og voru grátlega nærri að skora fyrsta markið á 3. mínútu, þegar varnarmaður Víkings hrasaði og Patrick Pedersen náði knettinum. Hann sendi knöttinn strax á Dion Acoff sem var á auðum sjó fyrir framan markið. Í stað þess að gefa aftur á Patrick þegar markvörðurinn kom á móti, freistaði Dion þess að leika hægra megin framhjá markverðinum - en tæknin brást honum. Hann missti boltann allt of langt frá sér, nærri því að endalínu og ekkert varð úr þessu upplagða marktækifæri.

Skömmu seinna urðu Víkingar fyrir áfalli þegar Sölvi Geir Ottósson, reyndasti varnarmaður þeirra meiddist og varð að yfirgefa völlinn í kjölfarið. Þrátt fyrir að Valsmenn hefðu greinilegt fumkvæði, héldu boltanum vel á miðjunni og reyndu að skapa sér færi tókst þeim ekki að nýta sér yfirburðina í byrjun. Á 12. fengu þeir annað upplagt tækifæri þegar Andri fékk knöttinn á vinstri kanti eftir fallega sókn, hann sendi hnitmiðaða sendingu inn í teiginn þar sem Guðjón Pétur stóð óáreittur en Guðjón hitti knöttinn illa og gott marktækifæri fór þar forgörðum.

Á 17. mínútu gaf Guðjón Pétur góða stungusendingu fram á Patrick sem ekki hafði mikinn tíma til að athafna sig en náði þó góðu skoti sem fór rétt fram hjá markinu. Skömmu seinna varð sterkasti framherji Víkinga, Rick Ten Voorde, að yfirgefa völlinn sökum meiðsla. Valsmenn hertu tökin og þar kom að því að þeir brutu ísinn.

Á 23. mínútu sendi Birkir Már fallega sendingu upp hægra megin á Dion Acoff sem nýtti hraða sinn, komst fram hjá varnarmanni og sendi góða sendingu inn í vítateig Víkinga. Þar lét Patrick, miðherji Vals, boltann sigla sinn sjó því að baki honum stóð Andri í enn betra færi og afgreiddi boltann af öryggi í netið, 1 - 0! Virkilega vel að þessu marki staðið hjá Valsmönnum.

Einstakt atvik átti sér stað í kjölfar marksins þegar Kristinn Freyr gekk til dómara ásamt fyrirliða og fór þess á leit að fá að kasta af sér vatni utan vallar. Dómari veitti leyfið og Kristinn Freyr stökk af velli, brá sér bak við skúr kvikmyndatökumanna vestan vallar og létti á sér. Ekki minnist ég þess að hafa orðið vitni að slíku á mótsleik í meistaraflokki áður!

Vannýttu færin voru fleiri en mörkin í fyrri hálfleik. Á 31. mínútu skapaðist upplagt færi þegar Dion komst í gegn og upp að endamörkum. Nóg var af mönnum í teignum að velja úr en Dion kaus að gefa knöttinn á mótherja og rann þar gott færi út í sandinn. En vonbrigðin gleymdust fljótt því aðeins mínútu seinna sýndi Birkir Már frábæra takta, fékk knöttinn hægra megin á vallarhelmingi Víkinga, lék í átt að vítateigshorninu þar sem varnarmaður kom á móti, Birkir lék laglega á hann, lagði knöttinn yfir á vinstri fót og sendi fastan jarðarbolta í fjærhornið, glæsilega gert, 2- 0!

Ekki gerðist neitt markvert sem eftir lifði hálfleiksins og það voru vongóðir Valsmenn sem gengu með tveggja marka forystu til leikhlés á Hlíðarenda.

Valsmenn hófu seinni hálfleik líkt  og þann fyrri, náðu fljótt yfirhöndinni og eftir þriggja mínútna leik lauk Patrick góðri sókn með skoti úr vítateignum sem geigaði naumlega. Víkingar áttu upplagt marktækifærifæri á 51. mínútu þegar Akel Freyr Hilmarsson var skyndilega kominn í dauðafæri en skot hans rataði beint í fang Antons Ara.

Valsmenn gerðu fyrsu breytinguna á liði sínu þegar rúmur hálftími var liðinn af seinni hálfleik, Guðjón Pétur fór af velli og í hans stað kom Einar Karl. Skömmu seinna gerðu má segja að Valsmenn hafi gert út um leikinn. Andri Adolphsson var þar að verki með frábæru einstaklingsframtaki. Hann fékk boltann úr innkasti vinstra megin á vallarhelmingi Víkinga, lék inn í teiginn og fram hjá öllum varnarmönnum sem á vegi hans urðu, smellti síðan knettinum með föstu ­ hægrifótar­­skoti­ framhjá Larsen markverði, 3 - 0!

Eftir markið gerðu Valsmenn enn frekari breytingar á liði sínu, Haukur Páll fór út af og fyrir hann kom Ólafur Karl Finsen og skömmu seinna kom Kristinn Ingi Halldórsson inn fyrir Dion Acoff.

Víkingar náðu aðeins að rétta hlut sinn þegar Nikolaj Hansen, fyrrum Valsmaður, skoraði á 80. mínútu með góðu skoti fram hjá Antoni eftir snarpa sókn. En ekki náðu þeir að fylgja þessu eftir, lítill tími á klukkunni og Valsmenn einfaldlega of stór biti að kyngja að þessu sinni.

Það voru síðan Valsmenn sem áttu síðasta orðið í þessum leik þegar Kristinn Ingi skoraði fjórða mark Valsmanna þegar hann, af harðfylgi, elti stungusendingu Kristins Freys fram völlinn og náði að reka tána í knöttinn rétt áður en markvörðurinn, sem kom hlaupandi út á móti, náði til hans. 4 - 1!

Það er mun jafnari keppni nú en í fyrra meðal efstu liða. Ekki munar nema þremur stigum á Val og þeim tveimur liðum sem elta, Breiðabliki og Stjörnunni. Valsmenn geta horft björtum augum fram til þeirrar baráttu sem framundan er.

Vörnin hefur styrkst með komu Svíans Hedlund og einnig er miðjan er ákaflega vel mönnuð. Einar Karl, Guðjón Pétur, Haukur Páll, Kristinn Freyr, Ólafur Karl og Sindri Björnsson (ég nefni þá í stafrófsröð) hafa ólíka hæfileika en eru hver um sig feikilega sterkir og enginn yrði hissa þó gætti valkvíða hjá þjálfaranum þegar skipa á liðið hverju sinni.

Það sama má segja um framlínuna, Andri Adolphsson, Dion Acoff, Kristinn Ingi og Sigurður Egill eru útherjar sem öll liðin í efstu deild gætu verið fullsæmd af og Danirnir Patrick Pedersen og Tobias Thomsen hafa margoft sýnt hversu megnugir þeir eru. Bekkurinn er sterkur, þaðan hafa þeir Arnar Sveinn og Andri Fannar oftsinnis komið og glatt okkur með góðri frammistöðu, að ógleymdum Sveini Sigurði í markinu. Ef að þessi hópur helst heill í sumar og sýnir góða samstöðu og vinnusemi þá eru meiri líkur en minni á að við náum að verja titilinn. ÁFRAM VALUR!