Mikilvægt skref í átt að marki. Valur - ÍBV 5 - 1

Valur - ÍBV   5 - 1   (0 - 1)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 20. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 16. september 2018, kl. 17:00

Aðstæður: Mjög góðar, hitastig 11°c, logn, léttskýjað. Áhorfendur: 855

Dómari: Ívar Orri Kristjánsson. Aðstoðardómarar: Bryngeir Valdimarsson og Egill Guðvarður Guðlaugsson

 

Valsmenn stilltu upp sínu sterkasta byrjunarliði gegn ÍBV, að undanskildum Eyjamanninum Eiði Aroni Sigurbjörnssyni sem tók út leikbann. Bjarni Ólafur lék í stöðu miðvarðar, við hlið Svíans Sebastians Hedlunds, í stað Eiðs, og kom Ívar Örn inn í vinstri bakvörðinn í stað Bjarna. Birkir Már lék sem hægri bakvörður að vandaog Anton Ari gætti marksins.

Á miðjunni voru þeir Haukur Páll, Einar Karl og Kristinn Freyr. Dion Acoff og Andri Adolfsson léku á sitt hvorum kantinum en fremstur fór Daninn Patrick Pedersen.

Valsmenn byrjuðu betur en Eyjamenn komust smám saman inn í leikinn og áttu fyrstu hornspyrnu leiksins á 7. mínútu. Á 12. mínútu átti markvörður Eyjamanna langt útspark upp í hægra hornið á vallarhelmingi Valsmanna náði útherji þeirra að senda fyrir markið en hættunni var bægt frá.

Á þessum tíma virtist Valsliðinu skorta áræðni og ákefð en Eyjamenn voru til alls líklegir. Enda fór svo að Eyjamenn náðu forystunni á 20. mínútu eftir laglega sókn upp vinstri kantinn. Bakvörðurinn Coelho komst í gegn og gaf góða sendingu inn í miðjan teiginn þar sem Atli Arnarson stóð óvaldaður og afgreiddi knöttinn af öryggi í netið.

Það var farið að fara um um áhangendur Vals í stúkunni um miðbik fyrri hálfleiks. Valsmenn komnir undir og ekkert virtist ganga, hver sóknartilaunin af annarri fór út um þúfur. Myndi efsta sætið ganga þeim úr greipum? Ætlaði þetta sterka lið ekki að standast álagið í toppbaráttu lokaumferðanna? En þrátt fyrir að Valsmenn næðu ekki að sýna sitt rétta andlit í sóknarleiknum í fyrri hálfleik þá héldu þeir ótrauðir áfram að reyna og það veitti von um að þetta myndi hafast, áður en yfir lyki.

Á 26. mínútu komst Dion Acoff nálægt því að jafna þegar hann slapp í gegn, einn á móti markverði, en skot hans fór naumlega framhjá. Ágætri sókn Valsmanna á 28. mínútu lauk með skoti frá Andra sem hæfði varnarmann og markvörður náði síðan að hafa hendur á knettinum. Á 30. mín lauk góðri sókn með horn spyrnu sem ekkert kom út úr og á 33. mínútu fengu Valsmenn aukaspyrnu fyrir utan teig en ekki rataði boltinn inn.

Það færðist þó nokkuð fjör í leikinn sem eftir lifði hálfleiks og voru Valsmenn mun líklegri en allt kom þó fyrir ekki og þegar Ívar Orri dómari flautaði til leikhlés var staðan 0 - 1 Eyjamönnum í vil.

Seinni hálfleikurinn fór fjörlega af stað. Liðin sóttu á báða bóga í byrjun. Valsmenn  fengu hornspyrnu á 47. mínútu og pressuðu ákaft í kjölfarið.  Eyjamenn náðu skyndisókn á 50. mínútu og uppskáru tvær hornspyrnur. Þeir náðu hörkuskoti upp úr seinna horninu, á 52. mínútu, en það fór naumlega framhjá.

Fjórum mínútum síðar, á 56. mínútu, kom jöfnunarmarkið. Andri Adólfsson átti laglega stungusendingu inn í teiginn á Patrick Pedersen, Patrick lagði knöttinn fyrir sig og renndi honum af öryggi undir Halldór Pál, markvörð ÍBV. 1 - 1!

Næstu mínútur tók við einn besti leikkafli sem Valsmenn hafa náð í sumar. Boltinn gekk hratt á milli manna og Eyjamenn komu engum vörnum við. Upp úr hornspyrnu á 59. mínútu fékk Einar Karl knöttinn vinstra megin, sendi góða sendingu inn í teiginn þar sem Haukur Páll skallaði knöttinn af krafti í netið, glæsilegt mark, 2 - 1!

Eftir fallegt spil, á 61. mínútu, sendi Kristinn Freyr nákvæma sendingu á Patrick Pedersen. Hann lék laglega á einn varnarmann, komst inn í teiginn og skoraði með laglegu skoti framhjá Halldóri Páli, 3 -1! Áfram hélt fjörið, á 65. mínútu sendi Dion knöttinn á Patrick sem gerði sér lítið fyrir, sneri af sér þrjá varnarmenn í vítateignum og skaut síðan knettinum upp í hægra markhornið, magnaðasta mark leiksins, 4 - 1!

Eftir þessa syrpu, máttu Eyjamenn játa sig sigraða. Valsmenn höfðu öll völd og Ólafur þjálfari kaus að hvíla leikmenn og gerði skiptingar. Kristinn Ingi kom inn á í stað Dions Acoff á 73. mínútu og á 77. mínútu fékk Kristinn Freyr hvíldina og tók Guðjón Pétur Lýðsson hans stöðu. Kristinn Freyr átti tvímælalaust sinn besta leik í sumar, sívinnandi og mun fljótari, sérstaklega í seinni hálfleik, að finna menn í fæturna en oft áður sem leiddi til að sóknarleikur liðsins varð mun hraðari og hættulegri.

Á 82. mínútu hvarf Andri af velli og inn kom Sigurður Egill og á 88. mínútu átti Guðjón Pétur lokaorðið í leiknum. Valsmenn náðu boltanum af Eyjamönnum, Patrick Pedersen náði að senda á Guðjón Pétur sem skoraði með góðu skoti, 5 - 1! Geysi mikilvægur sigur í höfn. Liðið lék feikivel í seinni hálfleik, allir liðsmenn áttu góðan leik, Kristinn Freyr betri en nokkru sinni, vörnin góð og vængmennirnir frískir en á engan er hallað þó ég segi að Patrick Pedersen hafi verið maður leiksins.

Að hafa náð fjögurra marka sigri á þessum tímapunkti getur reynst okkur dýrmætt veganesti þegar upp verður staðið. Þetta var eitt skref í átt að markinu, en eins og máltækið segir: "Ekki er kálið sopið þótt í ausuna sé komið." Það er erfiður útileikur gegn FH á sunnudaginn, í næstsíðustu umferð. Haukur Páll verður líklega í banni en Eiður Aron snýr til baka.

Líklega er réttast að breyta byrjunarliðinu sem minnst, liði sem stóð sig svo vel í þessum leik, láta Eið Aron taka stöðu Hauks. Eiður er góður varnarlega, sterkur í loftinu, hefur gott auga fyrir spili, getur vel borið upp boltann og skilar knettinum vel frá sér. Hann er líklega besti kosturinn sem Ólafur hefur til að fylla í skarð Hauks Páls fyrirliða.

Ég er ekki í vafa um að Óli og Bjössi velja skynsamlegasta kostinn og að allir leikmenn munu gefa allt í leikinn til að knýja fram sigur gegn FH á sunnudaginn. ÁFRAM VALUR!