Valur fær öflugan liðsstyrk

Knattspyrnulið Vals fékk í gær öflugan liðsstyrk þegar Gary Martin, Emil Lyng og Lasse Petry skrifuðu undir samning við félagið. 

Markakóngurinn Gary Martin í Val

Gary Martin er 28 ára og kemur frá norska úrvalsdeilarliðinu Lilleström þar sem hann spilaði 18 leiki. Gary Martin sem leikið hefur í efstu deild í Belgíu og Noregi er uppalinn hjá Middlesbrough og hefur áður spilað í efstu deild á Íslandi samtals 118 leiki og skoraði í þeim 62 mörk.  Gary Martin er ætlað að fylla í skarð Patrick Pedersen sem seldur var til Moldavíu í desember. Þessi mikli markahrókur gerir samning við Val til þriggja ára

Reynsluboltinn Emil Lyng í Val

Emil Lyng er 29 ára og kemur frá ungverska liðinu Szombathelyi Haladás þar sem hann lék síðasta tímabil. Þar áður var hann á mála hjá skoska liðinu Dundee United.  Emil Lyng er uppalinn hjá danska liðinu AGF og hefur m.a spilað með Zulte Waragem í Belgíu, FC Nordsjælland í Dönsku úrvalsdeildinni, Lausanne Sport í Sviss og Esbjerg í Danmörku.  Tímabilið 2017 lék hann við góðan orðstír með KA í efstu deild og skoraði 9 mörk.  Emil Lyng lék á sínum tíma 8 leiki með Danska  21 árs landsliðinu. Samningur Emils gildir til næstu tveggja tímabila 

Danski úrvalsdeildarleikmaðurinn Lasse Petry í Val

Lasse Petry er miðjumaður og gengur til liðs við Val frá Lyngby BK. Hann er uppalinn hjá danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland þar sem hann lék yfir 100 leiki frá árinu 2011.  Lasse Petry hefur leikið með U21 og U20 ára landsliðum Danmerkur. Samningur Lasse Petry gildir til næstu tveggja tímabila.

Meðfylgjandi mynd: Fotbolti.net