Andri Fannar lætur af störfum eftir tæp 9 ár hjá Val

Andri Fannar Stefánsson lét á dögunum af störfum sem þjálfari hjá Val eftir að hafa starfað hjá félaginu í tæp níu ár, eða allt frá árinu 2011.

Fyrstu þrjú árin þjálfaði Andri hina ýmsu flokka en árið 2014 tók hann við sem yfirþjálfari yngriflokka karla. Samhliða yfirþjálfuninni var hann þjálfari bæði 4. flokks og yngra árs í 6. flokki.

Andri er gríðarlega metnaðarfullur þjálfari og verður hans sárt saknað að Hlíðarenda en hann fer sáttur frá borði."Að mínu mati er yngriflokkastarfið okkar búið að þróast hratt fram á við á þessum tíma sem ég hef verið hjá félaginu. Er það í takt við annan uppgang í félaginu og það er engum öðrum að þakka en metnaðarfullum og duglegum þjálfurum sem Valur er mjög heppið að eiga"  

Það er fátt sem Andri lét sig ekki varða þegar kom að starfi yngriflokka félagsins en hann gegndi einnig lykilhlutverki í að móta afreksstefnu félagsins og hafði yfirumsjón með Valsleiðinni s.l. ár. "Það er búið að mynda ákveðna hefð og umgjörð í yngriflokkunum sem þarf að halda áfram að þróa og svo er það allur mannauðurinn sem býr bæði í þjálfurum félagsins og kraftmiklum foreldrum sem eru reiðubúnir að hjálpa til við að halda uppi góðri umgjörð."

Andri mun spila með KA-mönnum á komandi tímabili í Pepsi Max deildinni ásamt því að koma að þjálfun yngriflokka líkt og hjá Val.

Í tilefni að starfslokum Andra færði Gunnar Örn íþróttafulltrúi félagsins honum bókina "Áfram Hærra" sögu félagsins í hundrað ár eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Við viljum nýta tækifærið og þakka Andra fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi.