Ungir og efnilegir knattspyrnumenn semja við knattspyrnudeild Vals

Knattspyrnudeild Vals samdi á dögunum við sex efnilega leikmenn sem hafa verið viðriðnir meistaraflokk félagsins á undirbúningstímabilinu og yngri landslið Íslands. Þessir ungu og efnilegu leikmenn hafa einnig verið viðloðandi afreksstefnu félagsins  ásamt því að stunda æfingar með sínum flokkum af krafti.

Torfi Geir Halldórsson markvörður er fæddur árið 2004 og gekk til liðs við Val frá Fram haustið 2018. Hann hefur verið í úrtakshópi U-15 landsliðs Íslands. Torfi Geir hefur verið undir handleiðslu markmannsþjálfara meistaraflokks Vals, Rajko Stanisic.

Kári Daníel Alexandersson er varnarmaður fæddur árið 2003. Kári lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Vals í Reykjavíkurmótinu í janúar s.l. á móti Fjölni og hefur verið í úrtakshópi fyrir U-16 ára landsliðs Íslands.

Luis Carlos Cabrera Solys er miðjumaður fæddur 2002. Luis spilaði vel fyrir meistaraflokk Vals í Reykjavíkurmótinu og hefur æft með U-17 ára landsliði Íslands.

Sigurður Dagsson varnarmaður fæddur 2002. Siggi Dags hefur komið við sögu í æfingaleikjum og Reykjavíkurmótsleikjum með meistaraflokki Vals í vetur og æft með U-17 ára landsliðinu.

Kristófer Andre Kjeld Cardoso miðjumaður fæddur 2002. Krstófer Andre spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í Reykjavíkurmótinu í janúar og hefur einnig æft með U-17 ára landsliði Íslands.

Sverrir Páll Hjaltested sóknarmaður fæddur árið 2000. Sverrir hefur æft með meistaraflokki Vals undanfarið og spilað vel í undirbúningsmótum í vetur ásamt því að vera lykilmaður hjá 2. flokki félagsins.