Skólaleikar Vals 2019

Elleftu Skólaleikar Vals voru haldnir fimmtudaginn 21. mars þar sem krakkar á miðstigi hverfisskóla félagsins koma saman og etja kappi í hinum ýmsu leikjum og þrautum í Origo-höllinni. Eins og venja er þá var gríðarleg stemning á meðan leikunum stóð og mjótt var á munum allt til loka þrautar.

Fyrsta keppni dagsins var Dodgeball (skotbolti) þar Hlíðaskóli var aðgangsharðastur og fékk 15 stig af 18 mögulegum. Háteigsskóli fékk 11 en Austurbæjarskóli rak lestina með 10. Hlíðaskóli leiddi því með 4 stigum eftir eina grein og má segja að þau hafi sett tóninn fyrir það sem koma skildi.

Í körfuboltaskotkeppninni náði Háteigsskóli að saxa á forskot Hlíðaskóla með því að næla sér í 16 stig á móti 14 stigum Hlíðaskóla. Bodsíakeppnin fór fram á sama tíma og körfuboltaskotkeppnin en þar bar Hlíðaskóli aftur sigur úr bítum og jók forskotið á ný.

Fjórða greinin var boðhlaup sem skiptist upp í tvær umferðir. Í fyrri umferð er hlaupið með hefðbundið boðhlaupskefli en tvo körfubolta undir höndunum í þeirri seinni. Þar var mjög mjótt á munum en aðeins munaði einu stigi á Austurbæjarskóla og Hlíðaskóla sem náði að tryggja sér sigur í síðasta hlaupinu.

Fyrir síðastu keppnina var Hlíðaskóli með þægilegt forskot á keppinauta sína og þurfti aðeins 8 stig úr reiptoginu til að tryggja sér sigur. Það fór svo að Hlíðaskóli nældi sér í 14 stig og tryggði sér þar með sigur á Skólaleikum Vals 2019. Austurbæjarskóli hífði sig uppfyrir Háteigsskóla í lokagreininni og endaði í öðru sæti.

Á þeim ellefu árum sem leikarnir hafa verið haldnir hefur Hlíðaskóli unnið sex sinnum, Austurbæjarskóli þrisvar og Háteigsskóli tvisvar. 

Smelltu hér til að sjá video af skólaleikunum 2019:  https://www.youtube.com/watch?v=sKwoUCYYAlU&feature=youtu.be