Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður í Val

Hannes Þór Halldórsson landsliðmarkvörður Íslands gengur til liðs við Íslandsmeistara Vals. Hannes Þór sem er besti markvörður Íslands og einn af þeim bestu frá upphafi gerir samning við Val út keppnistímabilið 2022.

Hannes Þór mun einnig koma að þjálfun markvarða yngri flokka þar sem hann mun miðla af reynslu sinni til yngri iðkenda félagsins. Hannes Þór hefur leikið erlendis undanfarin ár með, Brann, Sanders Ulf í Noregi, Nec í Hollandi, Randers í Danmörku og Qarabag í Azerbaijan. Hann hefur leikið 59 landsleiki fyrir Ísland og var aðalmarkvörður Íslands í úrslitakeppnum EM og HM.

Hannes er ekki bara frábær markvörður heldur mikill leiðtogi sem kemur til með að styrkja leikmannahóp Vals og félagið verulega á næstu árum.