Sjö Valsarar í A-kvenna og tveir í A-karla

Kvennalandslið Íslands mætir Finnlandi í tveimur vináttuleikjum í þessum mánuði og valdi landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson hópinn fyrir leikina nú á dögunum. Liðin mætast fyrst í Turku 13. júní og síðan í Espoo á þjóðhátíðardaginn sjálfan, 17. júní. 

Í hópnum eru alls sjö leikmenn kvennaliðs Vals, þær Sandra Sigurðardóttir, Guðný Árnadóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hlín Eiríksdóttir, Elín Metta Jensen og Fanndís Friðriksdóttir. 

Þá valdi Erik Hamren hópinn sem mun mæta Albaníu og Tyrklandi í undankeppni EM 2020 en báðir leikirnir fara fram hér á landi. Í hópnum eru tveir leikmenn Vals, þeir Hannes Þór Halldórsson og Birkir Már Sævarsson. 

Við óskum okkar fólki til hamingju með valið og góðs gengis í leikjunum.