Margrét Lára leggur skóna á hilluna

Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals í knattspyrnu, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Margrét Lára er ein allra besta fótboltakona sem Ísland hefur alið og á ákaflega glæsilegan og gjöfulan knattspyrnuferil að baki, bæði hér á landi og erlendis.

Má þar meðal annars nefna að Margrét Lára hampaði Íslandsmeistaratitlinum fjórum sinnum í búningi Vals, síðast nú í haust, og varð bikarmeistari einu sinni. Þá varð Margrét Lára fjórum sinnum markahæsti leikmaður efstu deildar sem leikmaður Vals og hlaut nafnbótina Íþróttamaður ársins árið 2007.

Margrét Lára:
"Ákvörðunin að leggja skóna á hilluna var langt frá því að vera mér auðveld. Ferillinn hefur verið draumi líkastur og ef einhver hefði sagt mér að ég hefði átt eftir að vinna alla þessa titla með liðum mínum og sem einstaklingur þá hefði ég aldrei trúað því. Titlarnir eru eitt en allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst í fótboltanum er það sem stendur upp úr. Ég er óendanlega þakklát fyrir allt, en kveð með trega og mjög sátt."

Knattspyrnufélagið Valur þakkar Margréti Láru fyrir hennar framlag til knattspyrnunnar hjá Val.

Smelltu hér til að sjá myndband með stuttri samantekt af ferlinum hjá Margréti.