Handknattleiksdeild framlengir við meistaraflokksþjálfara félagsins

Handknattleiksdeild Vals hefur framlengt samninga við báða meistaraflokksþjálfara félagsins, þá Ágúst Þór Jóhannsson og Snorra Stein Guðjónsson. Samningar þeirra beggja eru til þriggja ára.

Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir Knattspyrnufélagið Val og stuðningsmenn þess. "Þjálfararnir eru klárlega í hópi hæfustu þjálfara landsins og þó víðar væri leitað", segir Gísli H. Gunnlaugsson, formaður handknattleiksdeildar Vals.

Snorri Steinn hefur unnið mjög gott starf á undanförnum tveimur og hálfu ári og sett mark sitt á liðið og leikstíl þess.

Ágúst Þór Jóhannsson vann alla stóru titlana sem í boði voru á síðasta ári. Hann gerði liðið einnig að deildarmeisturum árið 2018.

Stjórn handknattleiksdeildar er gríðarlega ánægð með störf þeirra beggja og væntir mikils af störfum þeirra á komandi árum.