Fréttatilkynning

Knattspyrnufélagið Valur tilkynnir að vegna Covid19 faraldursins þá þarf félagið að bregðast við nýjum og erfiðum aðstæðum til að vernda starfsemi félagsins. Ljóst er að á meðan kórónuveiran geisar mun hún hafa gríðarleg áhrif á fjárhag íþróttafélaga um allan heim og er Valur þar ekki undanskilinn.


Leikmenn, þjálfarar og starfsmenn hafa að eigin frumkvæði boðist til að taka á sig launalækkun út almanaksárið 2020 og tekur nýtt og breytt fyrirkomulag við frá og með næstu mánaðamótum.

Engin starfsemi hefur verið hjá Val frá því samkomubannið var sett var á og hefur það haft töluverðan tekjumissi í för með sér og mun hafa langtímaáhrif á rekstur félagsins.

"Leikmenn okkar, þjálfarar og starfsmenn vita hver staðan er, þetta er þeirra vinna og þeir hafa sett sig vel inní málin og eru meðvitaðir um ástandið hjá íþróttaheiminum nú um stundir. Þeir hafa því boðist til að skerða laun sín ef það verður til þess að hjálpa félaginu sínu að komast í gegnum þetta"

sagði E.Börkur Edvardsson formaður knattspyrnudeildar Vals.

"Það kom ekkert annað til greina en að standa með félaginu okkar og okkur sjálfum á þessum erfiðu tímum, eins og einn góður maður sagði; Valur er ekkert annað en ég og þú og allir hinir. Liðsheildin okkar er sterk og einstök samkennd er í hópnum og menn eru tilbúnir allir sem einn að rétta fram hjálparhönd enda stefnum við allir og öll í sömu átt"

sagði Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals.

,,Valur er svo nærri okkur öllum að það var algjör einhugur um að gera það sem þarf til svo að félagið komi heilt út úr þessum óvæntu og óvægnu aðstæðum sem uppi eru út um allan heim"

sagði Elísa Viðarsdóttir leikmaður Vals.

Knattspyrnudeild Vals þakkar leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum fyrir að hafa stigið fram og tekið frumkvæðið á þessum erfiðu tímum og sýnir samstaða leikmannahópanna og starfsmanna þann einstaka anda og samstöðu sem einkennir allt starf félagins.

Stjórn Knattspyrnudeildar Vals

 

FC365AC132C4DECC8384142095E1F48700DF084F9A00E851BE660BE850060D4D_713x0.jpg