Valur deildarmeistari dominos deildar kvenna

Kvennalið Vals í körfuknattleik tryggði sér í gærkvöldi deildarmeistaratitilinn í dominos deildinni þegar liðið lagði stöllur sínar frá Stykkishólmi með 86 stigum gegn 62 í Origo-höllinni að Hlíðarenda.

Toppsæti deildarinnar var því tryggt og fengu Valsstelpur afhentan deildarmeistaratitilinn í leikslok. Það voru fyrirliðarnir Guðbjörg Sverrisdóttir og Hallveig Jónsdóttir sem lyftu bikarinum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Valur mætir Keflvíkingum í lokaleik liðsins í deildarkeppninni næstkomandi laugardag suður með sjó en í kjölfarið rúllar úrslitakeppnin af stað, nánar tiltekið þann 14. maí.

Við óskum stelpunum og öllum sem að liðinu standa hjartanlega til hamingju með deildarmeistaratitilinn árið 2021.