Valur B Íslandsmeistari í 2. deild karla

Á 110 ára afmælisdegi Vals var leikið til úrslita Í Origo höllinni um Íslandsmeistaratitilinn í 2. deild karla. Þar mættust Valur B og Njarðvík B en liðin voru efst í 2. deildinni þegar deildin fór í stopp vegna Covid.

Bæði lið eru ágætlega mönnuð og bauð leikurinn oft upp á lipra takta og á stundum skemmtilegan körfubolta. Það var hart barist frá fyrstu mínútu og greinilegt að bæði lið vildu krækja sér í bikar og medalíur. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-19 en liðin skiptust níu sinni á forystu í þeim leikhluta.

Í upphafi annars leikhluta náðu heimamenn hins vegar yfirhöndinni og fóru með 16 stiga forystu inn í hálfleikinn 48-32. Vörnin var að halda nokkuð vel sem sást meðal annars á villum liðsins sem voru í öllum regnbogans litum. 

Njarðvíkurdrengir gerðu nokkur áhlaup í þriðja og fjórða leikhluta en höfðu ekki erindi sem erfiði. Vörnin hélt áfram að vera nokkuð sterk og sóknin á löngum köflum líka.

Valur hirti því bikarinn að lokum með 85-65 sigri - vel gert! Frábær endir á afar erfiðum vetri í 2. deildinni í körfuboltanum. Benedikt Blöndal fór fyrir Valsmönnum og var með 18 stig og 26 framlagspunkta. Hjá Njarðvíkurdrengjum var Veigar Páll Alexandersson allt í öllu og setti 28 stig og tók 11 fráköst - Mikið efni þar á ferð.

Stigaskor Vals:

Benedikt Blöndal 18 stig/4 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 15 stig/6 fráköst, Egill Jón Agnarsson 13 stig, Finnur Atli Magnússon 11 stig/5 stig, Ástþór Atli Svalason 10 stig/8 fráköst/6 stoðsendingar, Illugi Steingrímsson 7 stig/9 fráköst, Bergur Ástráðsson 7 stig og Snjólfur Björnsson 4 stig.

Stigaskor Njarðvíkur:

Veigar Páll Alexandersson 28 stig/11 fráköst/4 stolnir, Hermann Ingi Harðarson 9 stig, Baldur Örn Jóhannesson 6 stig/5 fráköst, Guðjón Karl Halldórsson 6 stig, Gunnar Már Sigmundsson 5 stig/10 fráköst, Eyþór Einarsson 4 stig, Elías Bjarki Pálsson 4 stig og Bergvin Einir Stefánsson 3 stig/6 fráköst

 

Meðfylgjandi mynd tók Guðlaugur Ottesen Karlsson - Sjá fleiri myndir facebook.com/Valurkarfa