Úthlutun á sérstökum styrk félagsmálaráðuneytis orðin rafræn

Nú nýverið var opnað fyrir úthlutun á sérstökum styrk til tekjulægri fjölskyldna og er opið fyrir nýtingu styrksins til 31.desember 2021. Þennan styrk er hægt að nýta til að greiða fyrir þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi og er styrkurinn í þessum úthlutunarglugga 25.000kr.- á barn.

Það sem hefur breyst frá fyrri úthlutunum er að núna er ekki um að ræða sérstaka umsókn eftir skráningu og greiðslu, heldur er umsóknarferlið og úthlutun styrksins komið inn í rafræna skráningarferlið og þannig hægt að "úthluta" þessum sérstaka styrk á sama hátt og frístundastyrk sveitarfélaga er úthlutað í skráningarkerfum Sportabler. Þetta er því mjög þægilegt fyrir notendur og gerir útdeildingu styrksins skilvirkari fyrir alla aðila.

Í grunninn virkar þetta þannig að forráðamaður finnur námskeið í Nóra eða Sportabler, skráir iðkanda á námskeiðið, velur að nýta frístundastyrk og við það fer af stað ferli sem kannar rétt viðkomandi á bæði frístundastyrk sveitarfélags og sérstökum styrk félagsmálaráðuneytis.

Styrkupphæð sem viðkomandi hefur til úthlutunar birtist þá á skjánum og hægt er að velja þá upphæð sem á að nýta til greiðslu viðkomandi námskeiðs, síðan er gengið frá greiðslu eftirstöðvanna í kerfinu og skráning staðfest. Athugið að upphæð styrks birtist sem samtala frístundastyrks sveitarfélags og sérstaks styrks félagsmálaráðuneytis í kerfum Sportabler ef viðkomandi á rétt á þeim styrk.