Valur bikarmeistari karla í ellefta sinn

Valur er bikarmeistari karla í handknattleik eftir fjögurra marka sigur gegn Fram á Ásvöllum og liðið því handhafi bæði Íslands- og bikarmeistaratitilsins í handbolta.

Liðið fór hægt af stað í byrjun leiks og Framarar skoruðu fyrstu 6 mörk leiksins. Valsmönnum tókst að vinna sig inn í leikinn með góðri vörn og Bjöggi var frábær á milli stanganna. Þegar flautað var til hálfleiks hafði Valur jafnað leikinn 12-12. 

Líkt og í fyrri hálfleik fóru Valsarar hægt af stað í seinni hálfleik og þegar 10 mínútur vor liðnar hafði Fram náð 16-13 forystu. Það tók Val þó ekki nema þrjár mínútur að snúa taflinu við þar sem þeir náðu góðum 4-0 kafla og litu aldrei um öxl eftir það. Varnarleikur liðsins var fyrnasterkur í leiknum auk þess sem Framarar höfðu fá svör við fjölbreyttum sóknarleik okkar manna. 

Við óskum strákunum og öllum sem að liðinu standa til hamingju með titilinn og minnum um leið á næsta leik liðsins í deildinni sem laugardaginn 9. október gegn Víkingum á útivelli.

Markaskorarar Vals: Tumi Steinn Rúnarsson 7, Vignir Stefánsson 6, Magnús Óli Magnússon 4, Arnór Snær Óskarsson 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 3, Finnur Ingi Stefánsson 3, Björgvin Páll Gústavsson 1 og Einar Þorsteinn Ólafsson 1 mark. Björgvin Páll Gústavsson varði 19 skot í markinu.