Alexander Örn Júlíusson er íþróttamaður Vals 2021

Val á íþróttamanni Vals árið 2021 var kunngjört núna í hádeginu með streymi í gegnum facebook síðu Vals. Sú hefð að velja íþróttamann Vals hófst árið 1992 eða fyrir 29 árum með því að Halldór Einarsson gaf bikar og kom hefðinni á. 

Val á íþróttamanni ársins fer fram með þeim hætti að 7 manna dómnefnd hittist, horfir yfir árið sem er að líða og skoðar frammistöðu þeirra íþróttamanna sem til greina koma. Horft er til margra þátta, sem eru vegnir og metnir og að lokum greidd atkvæði. Sá einstaklingur sem hlýtur flest atkvæði er svo útnefndur íþróttarmaður Vals.

Í dómnefndinni eru Halldór Einarsson, formaður aðalstjórnar félagsins, sem og tveir síðustu formenn aðalstjórnar auk formanna allra deilda. 

Fyrir valinu þetta árið var handknattleiksmaðurinn Alexander Örn Júlíusson en hann er fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Vals í handknattleik. Gaman er að segja frá því að niðurstaða dómnefndarinnar var ótvíræð - algjör samhljómur um valið.

Alexander er vel að þessu kominn og var að vonum kampakátur að afhendingu lokinni sem fór fram í Fjósinu miðvikudaginn var. "Þetta er mikill heiður og ég er stoltur af þessari viðurkenningu. Mér þykir ákaflega vænt um félagið og hef fylgst með valinu á íþróttamanni Vals frá því ég var barn. Þetta er því sérstök stund fyrir mig og fjölskylduna. Svo má ekki gleyma því að þetta er einnig viðurkenning fyrir liðið sem náði frábærum árangri í ár og stefnir enn hærra á næsta ári."

Veittar voru viðurkenningar fyrir efnilegasta íþróttafólk félagsins í öllum greinum, karla og kvenna. Knattspyrnudeild útnefndi Birki Heimisson efnilegasta knattspyrnumanninn og Ídu Marín Hermannsdóttur efnilegustu knattspyrnukonuna. Handknattleiksdeildin valdi Einar Þorstein Ólafsson efnilegasta handknattleiksmanninn og Elínu Rósu Magnúsdóttur kvenna megin. Hjá körfuknattleiksdeildinni var Ástþór Atli Svalason valinn efnilegastur og Sara Líf Boama efnilegust.

Þá veittu deildirnar þrjár viðurkenningar fyrir sjálfboðaliða ársins 2021. Sjálfboðaliði knattspyrnudeildar var að þessu sinni Þorsteinn Guðbjörnsson, Gísli Níelsson hjá handknattleiksdeildinni og Torfi Magnússon hjá körfuknattleiksdeildinni.

Við óskum Alexander Erni og öllum þeim sem fengu viðurkenningu hjartanlega til hamingju.