Píeta og Valur áfram hærra

Í kvöld er eins og flestir Valsarar vita tvíhöfði í handboltanum þar sem kvennalið félagsins mætir Haukum í fyrsta deildarleik sínum klukkan 18:00. Karlaliðið mætir Herði beint í kjölfarið en um er að ræða fyrsta leik Ísfirðinganna í efstu deild karla í handknattleik. Á þessum leikjum verða vígð ný segl í kringum völlinn í Origo-höllinni. Hugmyndin er að búa til enn meiri gryfju en nú er fyrir og setja ramma utan um völlinn og skapa þéttari umgjörð. Á sama tíma vill Valur halda merki Píeta samtakanna hátt á lofti en tengsl Píeta og Vals hafa verið mikil í gegnum tíðina, ekki síst eftir fráfall Stefáns Karlssonar, en þá jókst áhersla Vals á að auglýsa þessi mikilvægu samtök.

Á síðasta ári opnaði Stebba Stofa (Timeout/Recovery herbergi að Hlíðarenda) og næsta skref er að gera Píeta sýnilegri innan félagsins. Körfuknattleikslið Vals spilar með merki samtakana á búningum sínum og hefur handknattleiksdeildin verið dugleg að hafa merki Píeta sjáanlegt á auglýsingarskiltum á heimaleikjum.

Í stað þessa að fara hina hefðbundnu leið að merkja seglin eða skilti með styrktraraðilum fórum við þá leið að merkja þau öll með merkjum Vals og Píeta og einu af slagorðum Vals - "Áfram hærra". Kostnaður við framkvæmd sem þessa er töluverður enda eru þetta um 160 fermetrar í það heila. Leitað var til styrktaraðila sem allir tóku vel í verkefnið og þökkum við þeim kærlega fyrir aðstoðina. Fyrirtækin sem umræðir eru Brim, Alark, Bauhaus, KPMG, Controlant og Gleðipinnar.

Verkefnið í heild sinni er tileinkað Sveini Rúnari Benediktsyni og hans fjölskyldu en Sveinn kvaddi okkur alltof snemma síðastliðið vor. Sveinn var mikill Valsari og ræktaði tengsl sín við félagið einkum í gegnum íþróttastarf dætra sinna þriggja, en þær ásamt eftirlifandi eiginkonu hans, eru allar virkar í starfi Vals. Vill félagið með þessum gjörningi senda þeim styrk í sinni baráttu. Vill fjölskylda Sveins jafnframt af þessu tilefni koma á framfæri þakklæti til Vals fyrir sýndan stuðning í kringum útför og erfidrykkju Sveins og að minningu hans sé haldið á lofti með þessum hætti.

Að lokum minnum við á orð Séra Guðna Más Harðarsonar í útför Stefáns Karlssonar "Gerum það fyrir Stebba að sameinast um að koma tilfinningum okkar og kvíða oftar í orð".

                                       

                                         Áfram Valur -  Áfram Píeta -  Áfram hærra!