Karlalið Vals í handbolta er lið ársins 2022

Í gær fimmtudaginn 29. desember fór fram sameiginlegt hóf ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna (SÍ) þar sem ÍSÍ afhentar voru viðurkenningar til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ og kjör SÍ á Íþróttamanni ársins, Liði ársins og Þjálfara ársins.

Karlalið Vals í handbolta var kosið lið ársins 2022 en liðið er eins og flestir vita ríkjandi bikar- og deildarmeistari auk þess að hafa staðið sig frábærlega í yfirstandandi Evrópukeppni (European League).

Alexender Örn Júlíusson, Arnór Snær Óskarsson og Stiven Tobar Valencia tóku við viðurkenningunni fyrir hönd liðsins og voru að vonum kampakátir. "Við erum náttúrulega með lið sem er stútfullt af gæðum, góðan þjálfara, góða stjórn og fjölmarga góða sjálfboðaliða. Svo held ég að liðið sé mjög hungrað í að ná árangri og tilbúið að leggja mikið á sig". Sagði fyrirliðinn þegar hann var spurður út í hver væri lykilinn að árangri liðsins. 

Þá var Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari liðsins í topp fjórum yfir þjálfara ársins þar sem Þórir Hergeirsson var valinn og Sandra Sigurðardóttir í topp 10 yfir íþróttamenn ársins en hún var frábær á yfirstandandi ári með bæði Val og landsliðinu.

Við óskum öllu Valsfólki til hamingju með tilnefningarnar og handknattleiksliði Vals til hamingju með nafnbótina.